Tuesday, August 31, 2010

Le Fabuleux Destin d'Amélie Poulain

Núna um helgina dreif ég loksins í því að horfa á Amélie eða með fullum titli Le Fabuleux Destin d'Amélie Poulain. Nú hafði ég séð þessa mynd (eða allavega hluta úr henni) einhverntímann, en mundi ekki neitt eftir henni.  Ég smellti henni í spilarann og eftir að hafa horft á hana furðaði ég mig afhverju í ósköpunum þessi mynd hefði farið svona lengi framhjá mér! Hún var tær snilld!
Amélie var fyrst sýnd árið 2001 og er leikstýrð af franska leikstjóranum Jean-Pierre Jeunet. Hún var tilnefnd til fjölda verðlauna, meðal annars fimm óskarverðlauna!

Amélie fjallar sem sagt um stúlku að nafni Amélie Poulain sem vinnur á kaffihúsi/bari. Hún var alin upp við frekar leiðinlegar aðstæður. Pabbi hennar var kaldur læknir sem snerti hana aðeins þegar hann athugaði heilsu hennar (sem hann endaði með að túlka sem hjartasjúkdóm því hjarta hennar hamaðist við spenninginn að eiga í samskiptum við hann). Mamma hennar var með veikar taugar, spennt og reiddist auðveldlega, hún dó hryllilegum dauðdaga fyrir framan Amélie. Hún flytur seinna út og gerist þjónn. En líf hennar breytist svo sannarlega þegar hún finnur kassa fullan af gersemum ungs drengs fyrir löngu. Hún finnur drenginn (nú eldri maður) og breytir þetta lífi hans. Eftir þetta ákveður hún að hjálpa fleirum og gerir hún það á stórskemmtilegan hátt með ótrúlegustu aðferðum! Amélie verður síðan hrifin af Nino, ungum manni sem hún sér oft hirða rifnar ljómyndir úr rusli hjá myndavélabás. Hún finnur myndaalbúmið hans og er það byrjunin af stórskemmtilegri ástarsögu!

Amélie má eiga það að hún skildi eftir risastórt bros á vörum mínum eftir að hún var búin! Hef hugsanlega aldrei séð mynd sem lét mig vera svona glaða í endann! :)
    Það sem ég byrja á að segja frá er hve litirnir í myndinni voru flottir og líflegir! Greinilega voru aðallitlirnir grænn og rauður í myndinni og kom það rosalega vel út!  Mér fannst einstaklega skemmtilegt líka hvernig hlutir, eins og lampi eða myndir vöknuðu til lífsins eða það þegar sjónvarpið sagði sögu. Rosa sætt!
    Sagan sjálf var æði en leikararnir eiga rosa hrós skilið fyrir frammistöðuna, sérstaklega Audrey Tautou sem lék Amélie sjálfa, en hún var gjörsamlega frábær í þessu hlutverki! Hún náði þessum karakter svo vel, þessi feimna, svolítið barnalega ævintýragjarna og góðhjartaða Amélie. Ég einfaldlega get ekki ímyndað mér betri leikkonu í þetta hlutverk :)
Mér fannst persónan Amélie mjög athyglisverð út af fyrir sig. Hún er persóna sem hugsar í rauninni um alla í kring um sig en hunsar sín eigin vandamál. Síðan þegar kemur að því að hún þarf í rauninni að gera eitthvað fyrir sjálfa sig þá gengur það mun verr heldur en það sem hún gerir fyrir aðra.
Talandi um persónur! Rosalega fannst mér gaman að persónunum í myndinni! Hvort sem það var Nino, brothætti maðurinn, blindi maðurinn, ex-sircuskonan, konan sem trúði að allt væri að henni, stalkerinn og svo framleiðis. Frábært, frábært! Sömuleiðis fannst mér mjög skemmtileg nálgun á hvernig persónum var lýst. Dæmi má nefna þegar var verið að lýsa litlum hlutum sem þau elska, sem voru t.d að fleyta kerlingar, dýfa hendinni í poka af hrísgrjónum, smáatriði í bíómyndum, borða kjúkling og svo framveigis. Mjög gaman af því :)
    Verð samt að segja bara hvað þessi mynd var almennt skemmtileg og fyndin! Dæmi má nefna með gullfiskinn sem vildi deyja, garðálfinn sem ferðaðist um heiminn, símtalið við klámbúðina, uppgötvunin á hve sköllótti maðurinn var, hrekkirnir hennar Amélie á kaupmanninum og ég gæti lengi talið. Síðan voru náttúrulega bara þessi atriði sem fengu mann einfaldlega til að brosa, t.d. atriðið með blinda manninum
    Síðast, en ekki síst nefni ég tónlistina! Hún var rosa sæt og falleg. Gaf myndinni skemmtilegan blæ! Mér fannst þessi lög sérstaklega flott :Lag 1 og lag 2

 Sko, þessi mynd var æði! Hún má eiga heima á topp 10 listanum mínum, án efa. Trúi ekki að ég hafi ekki séð hana fyrr! Mæli án efa með henni og langar mig satt að segja að horfa á hana aftur fljótlega! :D

Skelli einum sætum trailer í endann, fyrir þá sem hafa áhuga
Linkur á trailer-inn ;)

Thursday, August 26, 2010

Uppáhalds myndirnar mínar :)

Jæja nú er komið að minni fyrstu færslu hér á blogginu! Fyrsta verkefni mitt hér mun vera að segja aðeins frá uppáhalds kvikmyndum mínum. En veistu, það er bara erfiðara en það hljómar! Nú hef ég setið hér síðustu daga að brjóta heilann um hvað séu uppáhalds myndirnar mínar og var þetta erfitt val!
Ég mun ekki hafa þessar myndir í neinni röð, alveg handahófskennt! Ég get alls ekki ákveðið hver er best. Ég á fullt af myndum sem ég gjörsamlega elska! Ég ákvað samt að setja fjórar af þessum myndum í bloggið sem ég tel að sé, tjah, topp fjórar hjá mér þó svo að það sé dæmigert að ég breyti um skoðun um leið og ég birti bloggið.


Shichinin no samurai (Sjö samurai-ar)


Ég er mikill áðdáandi Japanska leikstórans Akira Kurosawa og hef ég ekki enn séð mynd frá honum sem mér líkaði ekki! Skelli áreiðanlega inn einu fallegu bloggi um verk eftir hann seinna. En svo ég komi mér að myndinni sjálfri. Ég tel að Shichinin no samurai sé mín uppáhalds mynd eftir hann og er það svo sannarlega ekki að ástæðulausu!
Ég sá þessa mynd fyrst fyrir nokkrum árum heima hjá pabba. Hann vildi meina að þetta væri geðveik mynd og ég yrði að sjá hana. Hann sannfærði mig og ég horfði nú á hana, ekki með miklar væntingar. En hvað! Ég var gjörsamlega heilluð eftir að hún hafði klárast! Þvílík mynd!
    Myndin fjallar sem sagt um það í stuttu máli þegar fátækir bændur bregðast við yfirvofandi innrás ræningja á þorp þeirra með því að ráða sjö samurai-a til þess að vernda þorpið sitt. Myndin snýst svo um undirbúning samurai-anna, líf bændanna ásamt smá innsýn á hverjir samurai-arnir sjálfir eru. Auðvitað  eru síðan frábærar bardagasendur þar sem samurai-arnir berjast hetjulega, ásamt bændunum, gegn ræningjunum.
    En af hverju er þetta ein af mínum uppáhaldsmyndum? Það eru nú nokkrar ástæður fyrir því. Ég gjörsamlega elskaði persónusköpunina í þessari mynd. Það var gamli samurai-inn sem litið var upp til, ungi samurai-inn sem enn var að fóta sig í lífinu, ruddinn/svarti sauðurinn, sá rólegi, brandarakallinn, bændurnir, og svo gæti ég lengi talið. En allar þessar persónur geta unnið saman þrátt fyrir hver ólíkar þær eru og er myndin samin þannig að allir fá að láta ljós sitt skína og hafa sinn tilgang. Sagan sjálf er náttúrulega mjög skemmtileg ásamt þvi einfaldlega hve mikið er lagt í þessa mynd.
Gaman má geta að það er skot í myndinni, sem varir líklega í svona eina sekúndu, sem er í uppáhaldi. Það er þegar gamli þorpsstjórinn situr í myllunni sinni með bambusspjótið sitt. Það má sjá sólargeislana skína inn um vegginn. Þótt þetta skot sé svona stutt þýðir það svo mikið. Gamli maðurinn er svo ákveðinn á sínu!! Heillaði mig algerlega!! Sagði svo margt!
    Ef þú hefur aldrei horft á Kurosawa mynd þá mæli ég klárlega með því að þú byrjir á þessu meistaraverki! Og ekki örvænta þó hún sé snefil löng - þessir tæplega fjórir tímar líða eins og kveikt sé á eldspýtu.

Requiem for a Dream

Requiem for a Dream (2000) var leikstýrð af Darren Aronofsky. Ég man ekkert hvernær ég sá þessa mynd fyrst. En ég man svo sannarlega hvernig ég brást við henni. Nú hef ég séð hana svona þrisvar, fjórum sinnum (hitti einhvern veginn alltaf á hana þegar hún er í sjónvarpinu...) og hugsa ég alltaf í enda myndarinnar um hve frábær þessi mynd var. Þetta er mynd sem virkilega situr eftir í manni. 
Myndin snýst í kringum fjórar manneskjur sem allar eru háðar eiturlyfjum. Harry, Marion, Tyrone og Sara, mömmu Harry. Þessar manneskjur eiga sér allar drauma og vonir í lífinu í byrjun myndarinnar. En þegar líður á myndina er sýnt hvernig neysla þeirra fer úr böndunum og fer að stjórna lífi þeirra og draumar þeirra verða að engu.
    Þessi mynd er rosaleg. Rosaleg. Get ekki sagt annað! Það sem ég elska hugsanlega mest við myndina er sagan sjálf og hvernig hún var túlkuð í leik. Hvernig það er sýnt allt gott í byrjun en síðan drauma þeirra hægt og rólega fara til fjandans. Mér finnst þetta ekki þessi hefðbundna "ekki fara í dóp" mynd. En aðalástæðan fyrir því að hún er aðeins öðruvísi er líklega vegna sögu gömlu konunnar sem langar bara að grennast en endar sem fíkill. Síðan var leikurinn til fyrirmyndar, Ellen Burstyn fékk einmitt óskartilnefningu fyrir túlkun sína á móður Harry og skil ég það vel. Hún náði að fara frá brosmildu gömlu konunni yfir í skemmda manneskju í endanum. Nefni dæmi um það sem mér fannst flott voru samskipti Harry og Marion í lok myndarinnar. Það var rosa tilfinningaþrungið og fannst mér virkilega sýna hvernig komið var fyrir persónunum.
    Það var samt líka margt við myndatökuna sem mér fannst flott. Stuttu senurnar (ef kalla það má senu?) þegar þau eru að fá sér eiturlyf svo mjög flottar, þ.e. þegar þau undirbúa þau og innbyrða, augun víkka, áhrif. Mjög töff. Síðan var óspart notaður skiptur skjár sem mér fannst allavega koma mjög vel út.
    Síðan má ekki gleyma tónlistinni, en hún gerði mikið fyrir myndina. Notkunin á sinfóníuverkinu eftir Clint Mansell (Lux Aeterna?) var svo flott. Gat kallað fram áhrif sem hefði klárlega ekki verið til staðar nema tónlistin hefðu magnað þau!
    Já þetta er mynd sem ég mæli með fyrir alla, án efa!


Mononoke-hime

Mononoke-hime, eða Princess Mononoke á ensku er án efa ein af mínum uppáhaldsmyndum. Hún er gerð af Japanska animation leikstjóranum Hayao Miyazaki árið 1997 og er Miyazaki talinn vera einn sá færasti í þeim geira. Ég er rosalega hrifin af verkum eftir hann. Mæli með að fólk tjekki á honum ef það hefur ekki gert það. En nú sný ég mér að Mononoke-hime!
    Ég hafði alveg heyrt um þessa mynd en vissi ekkert um hvað hún var (hvað þá að hún væri teiknuð) en ákvað að tjekka á henni. Nú hef ég horft á þessa mynd tvisvar sinnum og fannst hún í bæði skiptin æðisleg!
Myndin fjallar í stuttu máli um dreng sem heitir Ashitaka, en á honum hvílir bölvun sem hann vill gjarnan losna við. Hann ferðast langt frá þorpi sínu og hittir á ferð sinni stúlku, San,  sem alin hefur verið upp af úlfum. Hann endar í Járnþorpinu eftir að hafa bjargað særðum mönnum og kemst að því að þorpið er í stríði gegn dýrnum í skóginum en þorpsbúar eru að eyðileggja skóginn og drepa dýrin. Hann flækist síðan í deilur þessara aðila og lendir í ævintýrum.
    Nú sést það kannski hér á undan í blogginu að ég elska góða persónusköpun. Mér finnst það einfaldlega lykilatriði í myndum. Þessi mynd er með frábærar persónur. Auðkennandi er auðvitað San, en hún er sjálfstæð stúlka sem lætur ekki segja sér hvað hún á að gera. Mestu skiptir hana að bjarga dýrunum og skóginum. Ashitaka er góðhjartaður og vill að allir lifi í sátt og samlyndi. Hann mismunar ekki. En það sem mér finnst einstakt í þessari mynd er að það er enginn augljós "vondur kall". Það hafa allir eitthvað gott og vont í sér. Þó Lady Eboshi, sem er leiðtogi í járnþorpinu, sé dregin upp sem "vondi kallinn" þá hefur hún góðar ástæður. Hún er að drepa dýrin, brenna skóginn, gefa skít í guðina, en það er SAMT eiginlega ekki hægt að líka illa við hana. Hún gerir þetta fyir fólkið, hún gefur því annað tækifæri í lífinu, vændiskonur, holdsveikir menn og óheppnir. Hún hjálpar þeim. Þannig hún er t.d. að gera vonda hluti, en samt í þágu góðs. æj þetta er svo sem ekkert vel rökstutt hjá mér. En mér fannst það mjög flott.
    Það eru augljós skilaboð í myndinni um umhverfisvernd og hvernig fólk er hætt að treysta á guðina (sbr. hvernig þau bera enga virðingu fyrir dýrinum, sem eru einskonar verndarar skógarins).
    Myndin sjálf er náttúrulega stórglæsileg út af fyrir sig! Það er greinilega gífurlega mikil vinna lögð í hana! Teikningarnar og öllu litlu smáatriðin. Svo flott! Alveg frá stórum og dularfullum skóginum til litríkra flugna sem sveima um. Það er allt svo fíngert og vandað. 
Þetta er klárlega mynd sem ég mæli með að fólk horfi á og vona að staðreyndin að hún er á japönsku og teiknuð ekki láta stoppa sig. :)

A Clockwork Orange


Classic mynd frá Stanley Kubrick sem var sýnd árið 1971 en svo tekin til baka af Kubrick sjálfum í Bretlandi eftir að myndinni var kennt um fjöldann allan af klíkum sem höfðu myndast í Bretlandi með sama tilgang og klíka Alex. Þessi mynd er ofbeldisfull, gróf, skrítin, ég neita því ekki! Þetta er svona mynd sem hér annað hvort líkar ekki við og finnst viðbjóðsleg eða þá að þér finnst hún meiriháttar. En það skiptir ekki máli hvaða skoðun þú hefur á henni, allir geta verið sammála um að þessi mynd er ógleymanleg og ef níunda sinfónía Beethovens heyrist þá hugsa ég um A Clockwork Orange.
    Þessi mynd er um unga manninn Alex sem er í  klíku sem fer um bæinn að lemja, nauðga, pynta og drepa. Alex endar síðan í fangelsi en fær tækifæri til að sleppa út fyrr með því að bara í "meðferð" gegn ofbeldi og kynlífi.
    En það eru samt ákveðnar spurningar sem skoppa upp við áhorf myndarinnar. Er maður, sem er neyddur til þess að vera góður, betri en sá sem er illur? Þessi óumtalaði mannleiki, valið til þess að ákveða hvað er rétt og rangt í hverju sinni. Hvað er að vera góður og hvað er að vera vondur maður. Alex er augljóslega vondur maður en samt sem áður líkar áhorfandanum vel við hann. Maður er að horfa á myndina frá hans sjónarhorni og því tekur maður afstöðu til hans. Áhorfandinn er oft settur í þá stöðu að Alex gerir eitthvað sem er augljóslega rangt, en maður vonar samt að hann sleppi frá því sem er að gerast við hann. Það er ekki oft þar sem tekst vel að láta áhorfandann halda með "vonda kallinum", manninum sem gerir virkilega ljóta hluti við fólk sem á það engan veginn skilið!
Ég lík svo umfjölluninni á A Clockwork Orange með því að benda á hve tónlistin er listilega vel notuð! Beethoven er t.d. er óspart notaður (enda uppáhald Alex) í ótrúlegustu senum, hvort sem það er kynlíf, pyntingar eða hvað það nú er. Tónlistin gerir mikið, mikið fyrir myndina!