Wednesday, December 1, 2010

Short Cuts

Claire The Clown
Ég ákvað að horfa á Short Cuts sem Robert Altman gerði árið 1993.
Myndin er í rauninni margar sögur sem tengjast á einn eða annan hátt. Ég verð eiginlega að viðurkenna að það er frekar erfitt að lýsa söguþræðinum... en reyni, skipti þessu niður... en nenni engan vegin að reyna að útskýra tengingar... það yrði allt of flókið. ;)
1) Þessi saga er um hjón og son þeirra. Eiginmaðurinn er fréttamaður og mamman heimavinnandi. Einn daginn er keyrt á son þeirra af gengilbeinunni sem er í sögu 9). Þau eru síðan mest alla myndina að berjast fyrir syni sínum á spítalanum. Nágrannar mæðgnanna í 2).
2) Jazz-söngkona sem vinnur á klúbbi á nóttunni en situr heima að drekka (væntanlega áfengi ef ég skildi rétt) á daginn og böggast í dóttur sinni fyrir sellóleik eða segja henni gamlar sögur af pabba hennar sem drap sig. Frekar kalt samband á milli þeirra.
3) Maður sem hreinsar sundlaugar og kona hans sem vinnur sem símakynlífskona. Hjónaband þeirra virðist standa á brauðfótum vegna starfs hennar og virðist þolinmæði hans vera orðin lítil. Eiga góða vini í sögu 4).
4) Þessi saga er um par sem fær það hlutverk að passa íbúð nágranna sinna í mánuð. Strákurinn er að læra að verða make-up-artist og hún er...eitthvað. Þau skemmta sér konunglega við að "passa" íbúðina, og flytja eiginlega inn í hana. Góðir vinir fólksins í sögu 3).
5) Saga um lækni og konuna hans sem er listmálari. Hann er með þá áráttu að hún sé að halda fram hjá honum og hún neitar samt alltaf. Hann er læknis stráksins í 1) og halda hjónin svo (mjög svo) villt matarboð með hjónunum í 6).
6) Þessi hluti er um hjón, maðurinn er atvinnulaus og konan er atvinnutrúður. Hann fer í veiðileiðangur með vinum  og finnur lík, en þeir vilja frekar veiða heldur en að fara til lögreglunnar. Hitta hjónin í 5) og halda (mjög svo) villt matarboð!
7) Sagan fjallar um konu sem er skilin við eiginmann sinn (þyrluflugmann sem hét Stormy Weathers...snilld!) en hann heldur áfram að koma heim til þeira og vill ekki að hún haldi áfram með líf sitt. Þau eiga einn son sem finnst ekkert skemmtilegra en að horfa á teiknimyndir. Konan heldur við lögguna í 8).
8) Þessi hluti er um hjón og líf þeirra. Maðurinn er lögreglumaður og konan er heimavinnandi með börnunum. Maðurinn er alltaf að halda framhjá henni og heldur m.a. við konuna í 7). Konan er systir konunnar í 5). Þau eru í óhamingjusömu hjónabandi og rífast um minnstu hluti, eins og t.d. pirrandi hundinn þerra Suzy.
9) Seinasta sagan fjallar um nokkuð furðuleg hjón. Maðurinn keyrir limmu og er alkóhólisti. Konan er gengilbeina og er komin með hundleið á honum og er reglulega að henda honum út, en fyrirgefur honum þó alltaf á endanum. Hún er mamma stelpunnar í 4) og keyrði óvart á strákinn í 1).
Stormy Weathers tekur til heima hjá konunni sinni ;)
 Úff, þetta er sagan í mjöög stuttu máli (og bara byrjunin á henni). Nenni engan veginn að útskýra tengingarnar betur, en þær eru miklu, miklu, miklu fleiri. En þá verður þessi færsla of ruglingsleg (ef hún er það ekki fyrir heh).

Annars fannst mér þetta rosalega skemmtileg mynd. Pabbi var að segja mér frá henni og hún hljómaði... tjahh.. frekar ruglingsleg. Níu söguþræðir er nokkuð mikið. En hvað! Þessi mynd er 187 mínútur en mér fannst hún líða svo fáránlega hratt og lipurlega. Myndin var allt annað en ruglingsleg og satt að segja var hún mjög vel gerð að því leiti að áhorfandinn missti ekki af neinu! Kannski er það smekksmál, en hvað með það.
Sögurnar tengdust allar á einhvern hátt, og oftast á stórskemmtilegan máta, tiltölulega sorglegan máta eða bara mjög einfaldan máta. Myndin var svo sannarlega stjörnum prýdd, gæðaleikarar í hverju hlutverki og allir stóðu sig frábærlega vel.
Persónusköpunin í myndinni er frábær. Hver og ein persóna í myndinni er svo vandlega útpæld að áhorfandinn getur oft séð bæði ytri og innri (þ.e. alvöru) manneskju persónunnar.
En ekki er myndin bara frábær á þann hátt að geta tengt allar þessar sögur og persónur saman, heldur er handritið snilld. Það var mjög fyndið, en samt alvarlegt, gerði stóra hluti úr lífi venjulegs fólks. Bara allt í allt snilld. Til að krydda upp á myndina var hún prýdd fjölmörgum góðum, en oft duldum bröndurum sem mér fannst snilld!
Ég hefði svo sannalega ekkert á móti því að horfa á þessa mynd aftur ... og aftur! :)

Hressu fullu hjónin!
Í stuttu máli:
Snilldar mynd! Mæli sterklega með henni. Ef þig langar í flottan söguþráð/þræði með skemmtilegum persónum og frábæru handriti, ekki láta þessa framhjá þér fara. :)

Að lokum er trailer fyrir þá sem hafa áhuga ;)


Tuesday, November 23, 2010

Þrjár stuttar myndir

Ég ætla að blogga til þess að fá mætingu þann 10. nóvember (held ég). Afsaka hvað þetta kemur seint, en ég var eiginlega búin að gleyma þessu! ;)
En ég horfði á þessar þrjár myndir: Le Ballon Rouge, La rivière du hibou og Dwaj ludzie z szafa. Svo skemmtilega vill til að mér fannst þær allar rosalega skemmtilegar og flottar. Tala aðeins um það.

Le Ballon Rouge

Le Ballon Rouge er leikstýrð af Albert Lamorisse árið 1956. Þessi mynd er rosa krúttleg mynd um lítinn strák sem finnur rauða blöðru. Hann röltir með hana í skólann og aftur heim og passar rosalega vel upp á hana. En síðan þarf hann að sleppa henni því hann má ekki hafa hana heima hjá sér. En hvað!? Blaðran virðist hafa sinn eigin vilja og svífur því aftur til stráksins. Þeir eiga svo hálfgert vinasamband þar sem blaðran eltir strákinn hvert sem hann fer. Síðan leikur hann og blaðran sér á götunum. En allir vilja eiga flotta rauða blöðru eins og strákurinn og er hópur af strákum sem vilja eyðileggja blöðruna og fara langt í því að reyna ná blöðrunni af stráknum.
Mér fannst þetta alveg hreinskilnislega æðisleg mynd! Mér fannst svo margt fallegt í henni! Til dæmis blaðran sjálf í myndinni var mjög flott að því leiti hvernig rauði liturinn stakk sig út úr umhverfinu og gaf henni einskonar sérstöðu hluta í myndinni. Svo fannst mér strákurinn mesta dúlla í heimi! Einnig fannst mér mjög flott hvernig rauða blaðran byrjaði bara sem hlutur í myndinni, eitthvað sem strákurinn vildi leika sér með. En smám saman tók hún að persónugerast og þangað til hún var í rauninni orðin ein af aðalpersónunum. Þetta var ekki lengur hlutur heldur sjálfstætt hugandi blaðra! Mér fannst bara útlitið sjálft á myndinni vera æði. Það var lítið sem ekkert tal, nema nokkrum sinnum eitthvað á frönsku og þegar strákurinn kallaði "ballon?!".
Svo sæt mynd! Mæli svo mikið með henni! :)

La rivière du hibou

La Riviére du hibou er leikstýrð af Robert Enrico árið 1962. Mér fannst þessi flottust af þessum þremur stuttmyndum! Myndin byrjar á flottum skotum af skóginum og kemur loks að aðalpersónunni okkar. Manni sem á að hengja fram af brú fyrir einhvern verknað. Hann skoðar umhverfið (svona ef hann myndi nú sleppa) og hugsar um fjölskyldu sína (giska af myndum... en ég kann ekki frönsku). En vitir menn! Reipið slitnar! Nú hófst barátta hans fyrir lífinu og að komast í burtu frá hermönnunum svo hann geti sameinast fjölskyldu sinni enn á ný. Endirinn er síðan nokkuð góður!
Eins og ég sagði framar, fannst þessi best af þessum þremur. Það var bara svo margt sem ég elskaði í þessari mynd. Vra bara eiginlega heilluð frá fyrstu fallegu skotum af trjám til endans (sem reyndar voru líka tré...en). Sagan virðist ekkert vera neitt spes fyrr en í bláendann, þá sat ég í smá sjokki! Sjúklega góður endir! Maður er látinn halda eitthvað alla myndina þangað til seinustu sekúndurnar þegar allt sem maður hélt áður hrynur!
Hver rammi, hvert skot virðist vera svo yndislega útpælt. Ég bara gat ekki hætt að hugsa um hvað þetta var falleg mynd.

Dwaj ludzie z szafa


Dwaj ludzie z szafa er leikstýrð af Roman Polanski árið 1958, Hún fjallar um, tjah, tvo menn sem koma á undarlegan hátt upp úr sjónum haldandi á skáp með spegli. Restin af myndinni er síðan um ferðalag þeirra um bæ með skápinn ávallt við hönd.
Mér fannst þessi líka skemmtileg! Ok bara fyrsta senan þegar þeir koma upp úr sjónum segir manni að þetta er frekar furðuleg mynd. Allavega, mér fannst þessi mynd klárlega eiga sína spretti. Eins og t.d. eitt skot sem ég verð að minnast á sem mér fannst ótrúlega vel gert, en það er skotið þar sem fiskurinn liggur ofaná speglinum og himininn speglast þar líka og það lítur út fyrir að fiskurinn sé fljúgandi í skýjunum. Of flott!
En kannski það sem mér fannst flottast við myndina er hvernig sagan endurspeglast óbeint, eða, sko. Sagan er ekki sögð beint heldur frekar óbeint, áhorfandinn getur myndað sína eigin skoðun. Sagan getur alveg snúist um hvernig allt gengur á afturfótunum hjá mönnunum vegna þess að þeir eru dröslandi um skáp út um allt. En þetta getur líka verið innlit í lífið í borginni. Kannski er ég bara að oftúlka þetta... :)

Jæja! Mér fannst þetta allt skemmtilegar myndir sem er frekar mikil tilviljun :)

Tuesday, November 16, 2010

Interview with the Vampire - handrit

Jæja, hér kemur stutta bloggið um handritaverkefnið sem við reyndar áttum að skila í gær, en hey! Það kemur nú, þó seint :)

Ég ákvað að horfa á myndina Interview With the Vampire sem er leikstýrð af Neil Jordan árið 1994 og skartar leikurum á við Brad Pitt, Tom Cruise, Antonio Banderas og Kirsten Dunst. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Anne Rice. Las ég handritið eins og eftir fyrirmælum.

Interview With the Vampire fjallar um mann sem heitir Louis. Það væri ekki frásögu færandi nema það að hann er hundgömul vampíra! Í myndinni er fjallað um sögu hans frá því hann "fæddist" sem vampíra og til nútímans og er hann að segja ungum manni frá lífreynslu sinni.
Louis var breyttur í vampíru af Lestat þegar hann var um 24/5 ára gamall og hafði misst konu sína og barn og var niðurbrotinn. Hann ferðast síðan um með Lestat, sem hann líkaði hreinlega ekki við, og drápu fólk (Louis fannst það ekki gaman, ólíktt Lestat). Þegar Louis ætlaði að fara frá honum þá breytti Lestat ungri stúlku, Claudia, í vampríu. Myndin fjallar síðan um lífreynslur þessara þriggja.

Mér fannst þessi mynd fín! Mér fannst sagan skemmtileg og ég fílaði persónurnar! Persónusköpunin var ágæt, það mætti alveg laga hana eitthvað, en það kom mjög vel fram einkenni og persónuleiki hvers og eins. Búningarnir í myndinni voru ruglaðir! Svo flottir! Þá sérstaklega kjólarnir hennar Claudiu, ég var bara ástfangin af þessum kjólum, ekki að það skipti mestu máli, en fannst að það mætti klárlega koma fram! :)
Nú er ég alls ekki aðdáandi Tom Cruise, satt að segja þá þoli ég ekki þennan leikara! En ég bara get ekki hunsað hvað hann var mikil snilld sem Lestat í myndinni, mér fannst hann allavega negla þessa persónu! Mér þykir erfitt að játa það að mér fannst hann ná þessari persónu vel. Lestat var náttúrulega besta persónan í myndinni fyrir utan hana Claudiu, sem mig langar líka að minnast á. Kirsten Dunst er nokkuð ung þarna og finnst mér hún klárlega hafa staðið sig best í myndinni! Brad Pitt hins vegar fannst mér þurr og bara leiðinlegur í þessari mynd. Kannski bara vegna persónunnar... en kannski sökkaði Brad Pitt bara í þessu hlutverki, er ekki viss hvort. Kannski túlkaði hann Louis á þennan hátt, en það bara virkaði ekki í myndinni. Veit bara að hann var sístur þarna.
Eitt samt sem böggaði mig, og gerir enn. Er að ég gjörsamlega fattaði aldrei hvort persóna Antonio Banderas væri vond eða ekki.Var hún vond? Var hún góð? Var hún bæði? Fannst hann alltaf hoppa á milli... En kannski bara því ég var alltaf að stoppa til að lesa handritið sem ruglaði mig.
Eitt að lokum sem mér fannst galli, það var hve sum samtölin voru ótrúlega stirð, væmin og ofleikin. Það er ekkert óalgengt að sja svona samtöl í svona myndum, en þessi samtöl sem ég er með í hugsa voru alveg roosalega strið og skrítin og venjulega var Brad Pitt  í þessum senum. Eins og ég sagði var 
hann rosa þurr í þessari mynd og hugsanlega var það þess vegna sem samtölin urðu svona skrítin.

Handritið:
Ég las handritið af myndinni eins og við áttum að gera, og alveg hreinskilninslega eyðilagði það myndina hálfpartinn fyrir mér. Bara já, finnst að það megi koma fram. Það pirraði mig að vera alltaf að stoppa að lesa og missti oft samhengi í myndinni vegna þessa. Auk þess fannst mér ég alltaf vera spoila myndinni, því ég vissi alltaf hvað var að fara gerast :(
En allavega, ég viðurkenni að mér fannst samt áhugavert að lesa handritið sjálft. Það var miklu einfaldara en ég hélt að það yrði. Ég einhvernveginn bjóst við að það yrðu meiri og nákvæmari lýsingar á senum og sjónarhornum og svona, en svo var ekki.  Samtöl voru, tjah, nákvælega eins og ég hélt svo hef ekkert beint að segja um það. En já, það sem mér fannst klárlega koma mér mest á óvart var hve lýsingar á senum vor eitthvað ónákvæmar. Ok þær voru nákvæmar, en samt ekki jafn mikið og ég hélt.
Annars var handritið nákvæmlega eins og ég bjóst við að handrit væri, svo ég hef ekkert mikið að segja meira um það :)
Eitt reyndar sem ég tók eftir að það var algerlega breytt endanum í myndinni og frá handritinu. En það var miklu flottara í myndinni, svo jibbi!

Í stuttu máli:
Ágæt mynd. Mjög skemmtileg. Flottir búningar og ágætur leikur á köflum.
Ef þú fílar vampírur, plíis horfðu á þessa en ekki Twilight! ;)

Friday, November 5, 2010

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo er þýsk mynd leikstýrð af Uli Edel árið 1981 og er byggð á sannri sögu. Myndin Fjallar um 13/14 ára stelpu sem heitir Christaine F. Hana langar rosalega að prófa nýjasta skemmtistaðinn sem allir eru að tala um og fær vinkonu sína til þess að fara með sig þangað. Það má segja að þetta breyti lífi hennar svo sannarlega. Þetta kvöld hittir hún nýtt fólk, fólk í dópi. Hún kynnist fólki sem hún fer að hanga með mikið. Fyrsta kvöldið er henni boðið upp á töflur. Í fyrstu neitar hún pent en endar með því að taka töflurnar. Þetta var byrjunin á dópvandamáli þessara stelpu. Mamma hennar hefur hitt nýjan mann, og hefur því engann tíma til þess að uppgötva(!!) vandamál dóttur sinnar.
Christiane hittir Detlev, en þau verða rosa ástfangin. En einn daginn byrjar Detlev á "H", eða heróíni. Þau hætta saman um tíma (byrja samt aftur saman), en fljótlega fer Christiane að prófa sig lengra í dópi og endar í heróíni eins og allir vinir hennar. Líf hennar tók að snúast um næsta skammt. Að eyða nóttum með vinum sínum í eiturlyjavímu. Festist algerlega í dópinu. Allt hættir að skipta máli þegar fráhvarfseinkennin koma. Myndin fjallar síðan um baráttu þessara ungu stelpu og fólksins sem hún hengur með.

Jæja, mér fannst þetta flott mynd! Það er eitthvað við svona dópmyndir. Annað hvort ná þær að koma skilaboðunum á framfæri eða verða asnalegar(ekki rétta orðið, een). En Wir Kinder vom Bahnhof Zoo kom boðskapnum vel á framfæri(þó það væri ekki aðaláherslan)... dóp er hræðilegt!
En ég ætla ekki að tala um það, heldur myndina sjálfa.

Það sem mér fannst flott við myndina var ekki myndatakan, ekki effectarnir, ekki tónlistin, ónei, heldur sagan. Myndin er byggð á sannri sögu Christiane F. og var þetta rosaleg saga! Það að 13 ára stelpa lendir í hættulegum heimi dópsins er erfitt áhorf. Að sjá hana hægt og rólega fara frá því að vera venjuleg 13 ára stelpa í að selja sig á götum Berlin til þess að eiga fyrir næsta skammti.
Stelpan sem lék hana Christiane, hún Natja Brunckhorst,  stóð sig mjög vel.
Það sem mér fannst einnig flott við myndina, er að það var ekkert beint verið að ýta undir "dóp er vont" skilaboðin, heldur er einfaldlega sagt sögu Christiane. Það leiðir augljóslega að skilaboðunum sem ég talaði um, en það var samt engan veginn það sem var lagt áherslu á. Áhersla var á að tjá sögu stelpunnar, sem er auðvitað um hræðilega reynslu hennar af heróíni og öðrum eiturlyfjum.
Það var ekkert fegrað hvernig dópheimurinn var sýndur. Það var sýnt hvernig þau veslast upp, verða háð, peningalaus, sum stunda vændi (auðvitað strákarnir líka) og hvernig þau missa eiginlega sín einkenni því allt snýst um að svala fíkninni á heróíni (eða hvað sem þau taka). Það eru sýnd ógeðslegu klósettin, nálastungur, áhrifin, fráhvarfseinkenni og hve erfitt er að losnsa úr klóm fíknarinnar o.fl.

Eitt annað sem mig langar svolítið að benda á sem pirrar mig svo mikið í (alltof) mörgum myndum nú til dags að leikarar sem leika unglinga eru svona 26 ára. En í þessari mynd er fengið stelpu sem er í alvörunni 13/14 ára gömul og kemur það svo miklu miklu betur út og er raunsærra. Ég kaupi það bara ekki þegar það er notað svona gamla leikara í ung hlutverk. Þannig já, það hefði eyðilagt áhrifin ef það hefði ekki verið notuð þessi unga hæfileikaríka dama í hlutverk Christiane.

Ég var mjög forvitin að sjá hvernig fór fyrir Christiane F. í framtíðinni þannig ég fór aðeins á google. Fjölmiðlar hringja stundum í hana til að sjá hvernig hún hefur það. Hún hefur fallið oft aftur í dópfíknina og m.a. verið svift forræði yfir barninu sínu. Já, ekki gott líf, hún náði sér aldrei almennilega eftir þessa lífsreynslu.

Hér einn ágætur trailer fyrir myndina:

Í stuttu máli:
Flott mynd sem tjáir sögu Christiane F. mjög vel. Ef þig langar að sjá hráa mynd með góðri sögu og ef þér finnst allt í lagi að horfa á frekar nasty nálaatriði þá mæli ég með þessari.

The Proposal

Jæja um daginn ákváðum við vinkonurnar að horfa á The Proposal! Blogga smá smá um hana :)

The Proposal er leikstýrð af Anne Fletcher og var sýnd 2009. Hún fjallar um hana Margaret, en hún er yfirmaður í einhverju big-shot útgáfufyrirtæki. Hún er algjör belja og er leiðinleg við alla. Sérstaklega aðstoðarmann sinn Andrew. En hvað! Einn daginn er tekið hana á skrifstofu yfirmanns síns. Visað hennar er að renna út þar sem hún er frá Kanada og á að vísa henni úr landinu. Hún tekur ákvörðun í fljótfærni og segist vera trúlofuð aðstoðarmanninum sínum, honum Andrew, og að þau séu að fara gifta sig bara í næstu viku eða eitthvað. Andrew er ekki hrifinn af þessu, enda getur hann farið í fangelsi! Hann vill því fá stöðuhækkun í staðinn fyrir þennan greiða. Síðan verða hlutirnir flóknir og þau enda heima í bænum sem Andrew ólst upp í og fjölskylda hans býr. Þau ætla að gifta sig þar (til þess að plata visa eftirlitsmennina). Síðan gerist fullt af hlutum og drama sem já, gerir myndina a því sem hún er.

The proposal er rooooosalega fyrirsjáanleg. Bara titillinn og coverið sagði mér endann. Þetta er svona stelpumynd sem er svona freeekar(haha djók, mjöög) sykurkennd á tímum. Persónurnar eru látnar virðast hata hvor aðra í byrjun. Hatur. Engin ást. En þegar líður á myndina komast þau að því að þau elska hvort annað, auðvitað.
Hef... eiginlega ekkert að segja um söguþráðinn. Hann er eins dæmigerður og hægt er að hugsa sér. Atburðarrásin meikar ekkert sense í rauninni, en það tilheyrir nú rómantískum gamanmyndum.  ;)
Enginn leiksigur á ferð, enda ekki beint hægt í þessari mynd. Handritið er ekkert til að hrópa húrra fyrir, en kom samt alveg með fína brandara. En hins vegar voru sum atriðin, tjah, fáránlega léleg en áttu að vera rosalega fyndin... en voru það bara ekki. Bara kjánahrollur yfir lélegu atriði. Þannig myndin átti sína skemmtilegu hluta, og sína (mjög) vondu.
Kannski var það svo bara ég... en ég skynjaði næstum ekkert chemistry á milli persónanna í myndinni! Sem mér fannst frekar skondið því þetta er rómantísk gamanmynd. Bara allt í einu voru þau orðin ástfangin og ætla að reyna á samband!
En hvað með það. Þetta er ekki meistaraverk, augljóslega. En hvað með það, ég viðurkenni að mér fannst hún skemmtileg. Þetta var góð afþreying, sem er nákvæmlega tilgangurinn með þesari mynd. Það er ekki verið að leitast eftir að gera góða mynd, heldur mynd sem lætur áhorfandann brosa smá, sem tókst. Þannig ég kvarta svo sem ekki :)

Það er svo sem ekkert mikið að segja um þessa mynd, hún er nákvæmlega eins og ég bjóst við að hún væri, s.s rosa fyrirsjáanleg og dæmigerð rómantísk gamanmynd

Í stuttu máli:
Ef þið langar að horfa á meistaraverk, slepptu þessari!! Ef þig langar að horfa á heilalausa, , klisjukennda og fyrirsjáanlega mynd sem er samt alveg gaman að horfa á, skelltu þér á þessa ;)

Saturday, October 9, 2010

Addicted in Afghanistan

Addicted in Afghanistan

Addicted in Afganistan er heimildarmynd eftir  Jawed Taiman og var hún fyrst sýnd 2009. Hún fjallar um heróínfíkn fólks í Afganistan og leggur myndin helstu áherlsuna á að fylgja tveimur vinum, þeim Jabar og Zahir (er ég nokkuð viss um að þeir hétu), en þeir eru báðir háðir heróíni (sem og flestir í fjölskyldu þeirra).



Mér fannst þetta rosalega fín heimildarmynd sem skildi mikið eftir. Í fyrsta lagi hef ég einhvern veginn aldrei vitað að það væri svona rosalega mikið af fólki í Afganistan sem eru háð heróíni. Nú man ég ekki tölurnar sem nefndar voru fullkomnlega, en þær voru sirka 10% þjóðarinnar sem eru háðir heróíni. Það er hræðileg tala! Hræðileg! Ég trúði varla mínum eigin eyrum!
Myndin fylgir þessum tveimur strákum og svona hluta af þeirra daglega lífi og þeir að fara í meðferð, og detta svo aftur úr henni. Síðan kemur smá forsaga um þáeins og hvernig þeir urðu háðir. Mér fannst einmitt mjög sorglegt að einn þeirra hafði verið fíkill síðan hann var svona 8 ára eða eitthvað. Bara vegna þess að mamma hans gaf honum ópíum (sem leiddi til heróíns) vegna þess að henni sýndist að honum leiddist. Leiddist?! Án gríns!? Síðan varð hinn háður eftir að hann strauk að heiman um 12 ára. Síðan mátti geta að hjá einum þeirra var pabbinn háður og hinum var systirin ný komin úr meðferð(en féll svo). Það að svona ungt fólk sé að fara í fíkn svona ung finnst mér hræðilegt. Aðstaðan til þess að fara í meðferð var ömurleg, t.d. var prógrammið bara um 10 dagar, sem er engann veginn nóg fyrir fíkla.
Einn þeirra náði loksins að verða “clean” (eða c.a.) og kom þá heim og fann lyktina af fíkniefnum ásamt því að sjá svo marga aðra í fíkninni. Greyið litli endaði svo auðvitað aftur í heróínfíkninni eftir að vinur hans kom og sannfærði hann.
Ég mæli steklega með þessari mynd. Mér fannst hún góð og eins og ég sagði að framan, þá skildi hún mjög mikið eftir í manni. Mér fannst erfitt að horfa upp á þessa stráka, sem annars væri örruglega frábærir drengir, dragast inn í veröld fíknarinnar og missa bara af öllu lífinu því allt snerist um heróín (eins og staðurinn sem allir fíklarnir hengu á). Þeir eyddu tímunum saman að sitja og vera í vímu. Mér fannst mjög leiðinlegt að horfa upp á það.

RIFF blogg 2

Jæja! Annað RIFF blogg um hinar myndirnar, allavega symbol. Blogga um Addicted in Afganistan sem heimanám og því í öðru bloggi. ;)

Symbol



Symbol er japönsk mynd eftir Hitoshi Matsumo og var sýnd 2009. Symbol hefur frekar flippaðan söguþráð. Hún fjallar sem sagt um mann sem er fastur inn í hvítu herbergi. Seinna birtast englar og ekkert verður eftir af þeim nema typpi á veggjunum. Ef maðurinn ýtir á mismunandi typpi þá gerast furðulegir hlutir. Eins og að kanna birtist, sushi, reipi, manga, vatn o.s.frv. Sagan binst síðan sögu frekar glataðs glímukappa í mexíko og undirbúning hans fyrir bardaga og sjálfan bardagann. Tengingin á milli þessa tveggja sagna fannst mér snilld.
Ok, mér fannst þessi mynd mjög skemmtileg, því hún var mesta sýra sem ég hef horft á en samt svo fyndin! Ég hafði allavega húmor fyrir þessari mynd! Söguþráðurinn var náttúrulega sýra(ekki til betra orð!) og frekar random!
Reyndar fannst mér milliparturinn frekar langdreginn(samt ekki, frekar einhæfur?) því það gerðist ekkert mikið meira en að ýta á typpin og sjá mismunandi verkanir. En hvað um það það var fyndið.
Ég myndi allavega mæla með henni fyrir þá sem vilja hlæja! :)

Armadillo



Ok. Éf ætla mér að eiginlega ekkert að dæma þessa mynd því ég las eftir á um hana á imdb og komst að því að hún var heimildarmynd…Ekki venjuleg mynd eins og ég hélt!! Ég fór á hana eiginlega án þess að vita neitt um hana. Þess vegna horfði ég á hana með eitthvað allt annað í huga og því fannst mér hún heldur spes(því ég hélt hún væri ekki heimildarmynd, en leit þannig út og ég varð smá rugluð…).
Annars þá eftir á því verður að viðurkennast að myndavélamennirnir hafa verið mjög hugaðir að tala þessi skot. Brjálaðar sprengjur og skotáraásir.. úff! Og að senan þar sem talibanar voru drepnir var miklu ógeðslegri eftir á… þar sem hún var víst í alvörunni! Sömuleiðis eftir á finnst mér brandararnir sem þeir sögðu og hvernig þeir réttlátu drápin mjög óviðeigandi.
Ég hálf skammast mín fyrir þessi mistök, sem eru frekar asnaleg…
Held að ég hefði notið hennar meira ef ég hefði fattað að hún væri heimildarmynd… En jæja, þannig fór það!
Hehh!

Ég hefði klárlega viljað fara á fleiri myndir en það hitti bara á frekar leiðinlega viku hjá mér svo ég komst nú bara ekkert á fleiri myndir. Reyndi að fara á Brim, en það var uppselt(kom alveg svona 3 tímum fyrir samt )
Annars fannst mér RIFF mjög vel heppnuð og skelli mér ábyggilega aftur á næsta ári :)


Monday, September 27, 2010

RIFF blogg

Nú er ég búin að fara á nokkrar myndir á RIFF síðustu daga en líffræðiritgerð fékk forgang um helgina.  Skrifa stuttlega um þær ;)

Fake orgasm
Fake orgasm er mynd eftir Jo Sol og var fyrst sýnd 2010 . Ég skrapp á þessa mynd, hélt hún væri einhverskonar mynd sem deildi á  uppgerðar fullnægingar eða eittthvað. (VARÚÐ, spoila smá!) Byrjunin á henni var í sniðinu eins og keppni í uppgerðri fullnægingu þar sem aðalgæjinn, (hann Lazlo Pearlman minnir mig?) var kynnirinn. Inn á milli kom eitthvað spjall um uppgerðar fullnægingar. Síðan bara allt í einu var kynnirinn farinn að strippa og reyndist hann vera karl með kven kynfæri. Sem sagt transsexual. Leit út eins og karl, hagði sér eins og karl, talaði eins og karl, var í rauninni karl, en var með konu kynfæri. Frekar spes atriði en allavega,  náði effectnum sem var að leitra af, s.s. undrun.
Eitt sem pirraði mig mega mikið var að hluti af myndinni var á spænsku með Argentínskum hreim(held ég), og textinn klipptist alveg af og ég allavega skildi ekki baun af því sem var að gerast, þá væntanlega hinir í salnum líka.
Síðan þróaðist myndin út í umfjöllum hvað sé kyn, hvað er að vera karl og kona. Talandi um transsexual fólk þar sem aðalgæjinn kom mikið við. Ekkert meira um uppgerðar fullnægingar, nema sem bending á sjálfsblekkingu?
Aðalmaðurinn hélt svo áfram að tala um að enginn skildi hann þegar hann var að reyna að útskýra kynhneigð sína og vildi meiri virðingu, sem ég skil vel að hann biðji um. En síðan kom loka atriðið sem mér fannst fáránlegt og sneri á vissan hátt út úr því sem hann var að segja fyrir. Hann var í miklum pælingum um að hann vildi að fólk skildi hann endar svo myndina á einhverjum apalátum  þar sem hann labbar nakinn um miðbæinn þar sem öll augu voru límd á hann. Ok, þetta atriði vakti bara ekki eina einustu umhugsun um stöðu transsexual fólks, var ekki einu sinni sniðugt. Bara kall á athygli.
Æj, mér fannst þessi mynd bara ekkert spes.
Skil vel pælingarnar en fannst bara alls ekki vel unnið úr þeim. Síðan komu langdregin atriði sem ég skildi ekki alveg hvernig tengdust viðfangsefninu. En jæja. Þessi mynd kom mér á óvart því hún fjallaði ekki um uppgerðar fullnægingar.

Womb
Ólíkt Fake orgasm fannst mér þessi nokkuð góð. Hún er leikstýrð af Benedek Fliegauf og kom úr núna 2010.
Womb fjallar sem sagt um stelpu, Rebeccu,  sem dvelur hjá afa sínum í ákveðin tíma og hittir hún strák sem heitir Tommy. Þau eiga dúlló æskuást saman en hún flytur til Tokyo og skiljast leiðir þeirra síðan. Mikið seinna, þegar þau eru bæði orðin fullorðin, flytur hún aftur heim á æskuslóðina og hittir Tommy. Þau verða ástfangin en fá ekki að vera lengi saman, þar sem Tommy verður fyrir bíl og deyr. Rebecca er miður sín af sorg og grípur á það ráð að klóna Tommy og ganga með hann sem sitt eigið barn!! Myndin er síðan í stórum hluta um þegar hún er að ala Tommy upp.
Mér fannst þetta fín mynd. Hún var heeeldur hæg á köflum, get eiginlega ekki neitað því. En mér fannst útlitið á myndinni mjög flott. Eins og bara umhverfið sem hún gerist að mestu í. Þá meina ég eins og húsið á sandinum. Var bara eins og endalaus auðn, sjúklega kúl.
Annar finnst mér málefni um klónun nokkuð athyglisverð og mér fannst söguþráðurinn góður. Það eru náttúrulega allt of miklar siðferðislegar spurningar sem vakna upp við klónun og fannst mér myndin koma þeim ágætlega til skila. Til dæmis að þótt hún hafi gengið með barn sem er erfðafræðilega eins og Tommy, þá er þetta augljóslega ekki sama manneskjan. Hún ýtti líka að honum hlutum til þess að láta hann þroskast á sviðaðan hátt og Tommy eldri. Finnst Eva Green nokkuð góð sem Rebecca, eins og þegar líður á ævi "sonar" hennar hvernig hún fer að átta sig á að þetta er ekki beint eins og hún hafði ímyndað sér.
En já, fín mynd sem ég mæli alveg með :)

Strella - A Woman's Way
Strella er leikstýrð af Panos H. Koutras og var sýnd fyrst 2009
Strella er mynd sem fjallar um mann, Yiorgos, sem sleppur úr fangelsi eftir 15 ára setu vegna manndráps. Hann verður síðan ástfanginn af transsexual vændiskonu eftir að þau verja nótt saman. Allavega. Þau eru mjög ástfangin og allt, en hvað. Síðan kemst Yiogos að því að Strella er í raun dummdummdummdumm, segi ekki meir en það kemur rosa twist sem breytir allri sögunni.
Veit ekki alveg hvað mér fannst um þessa mynd. Meina hún var ekkert léleg, en hún var ekki góð. Twistið sem kemur seinna í myndinni er frekar rosalegt og lætur mann hugsa um það sem gerðist fyrr í myndinni á annan hátt. Og mér allavega fannst þá fyrri hlutinn frekar rangur... Get bara ekki útskýrt það nema eyðileggja myndina fyrir einhverjum. En þetta er samt alveg athuglisverður söguþráður. 

Cyrus
Cyrus var leikstýrð af Jay og Mark Duplass og var sýnd  árið 2010.
Cyrus fjallar um John sem er skilinn, þunglyndur og einmana. Hann hittir Molly, einstæða móður sem er einnig að leita sér að maka. Hún á síðan soninn Cyrus, sem við fyrstu sýn virðist vera rosa indæll drengur. En hvað! Hann reynir af bestu getu að eyðileggja samband þessa tveggja og reynir að láta það heppnast með ýmsum aðferðum.
Cyrus kom mér mjög skemmtilega á óvart. Bara að lesa um söguþráðinn minnti mig á svona fimm aðrar myndir. En Cyrus var mjög skemmtileg og fyndin mig, mér til eiginlega furðu.
Mér fannst myndataka ekkert spes, og böggaði mig stundum súmmin sem komu við furðulegustu atriði. En það skiptir ekki öllu. Mér fannst það skemmtilegasta við myndina einfaldlega samskiptin milli persónanna. Sérstaklega fannst mér snilld hvað vandræðaleiki var vel settur fram.
Þetta var náttúrulega nokkuð mikið misnotuð saga(par+barn sem vill ekki hinn aðilann), en mér fannst hún vel spiluð úr vegna þess hve hún náði að vera fyndin.

Ég sá líka Addicted in Afganistan, hún var snilld! En ætla að blogga um hana sér og seinna :)

Sunday, September 19, 2010

Marathonblogg

Pantað var stutta færslu um marathonmyndirnar ;)

Gefið var okkur það verkefni að búa til marathonmynd. Hópurinn minn endaði með að eiga að gera mynd byggt á leti. Nú jájá, við byggðum okkar á leti og var upprunalega hugmyndin eitthvað í átt að degi í lífi lats manns, ef svo má segja.
Tökurnar á myndinni gengu mjög hægt um sinn meðan við voru að fikta í vélinni og reyna að læra betur á hana. Þetta kom síðan hægt og hægt. Var síðan eitthvað vesen með þegar við tókum upp senur og það kom eitthvað svart á milli. Ég náði reyndar ekki alveg hvað það var en það reddaðist víst held ég. Þetta reyndar tók miklu lengri tíma en ég bjóst við því það tók lúmskt langan tíma að ákveða hvar allt átti að vera, ákveða sjónarhorn, stillingar á vélinni o.s.frv.

Þessi mynd er náttúrulega fyrsta skiptið sem við notum svona myndavél og gerum mynd (allavega ég) og er því kannski skiljanlegt að myndin var ekkert frábær! En maður lærir að því og þess vegna verður maður betur undirbúinn í næstu mynd! :)


Ég fór reyndar veik heim daginn þegar sýndar voru hinar myndirnar svo ég get voða lítið sagt um þær!

Monday, September 13, 2010

Paprika

Núna um daginn horfði ég á myndina Paprika sem kom út árið 2006 og var leikstýrð að Satoshi Kon. Satoshi Kon var einmitt að deyja um daginn, sem mér þykir leitt, því þetta var greinilega hæfileikamaður á ferð!
Paprika er japönsk anime mynd byggð á skáldsögu Yasutaka Tsutsui. Myndin hefur víða hlotið lof, en auðvitað líka gagnrýni.
Satoshi Kon er m.a. þekktur fyrir myndirnar Millenium Actress, Tokyo Godfathers og þættina Paranoia Agent.

Í myndinni hafa vísindamenn fundið upp tæki sem heitir DC mini og með því kemst fólk inn í drauma annarra, séð þeirra innstu hugsanir og langanir. Aðallhetjan í myndinni er Dr. Atsuko Chiba sem á sér svona "alter ego" sem hún notast í draumaheimunum til þess að lækna sjúklinga, ólöglega með hjálp DC mini. Hún er ein af þeim sem þróuðu DC mini, ásamt offitusjúlkingnum og snillingnum, Dr. Kosaku Tokita. Enn einn daginn komast þau að því að þrjár frumgerðir af vélinni hafa verið stolnar. Þetta er grafalvarlegt mál, þar sem hægt er að ráðast inn í drauma annars fólks, jafnvel í vöku, og planta draumum eða gera það geðbilað. Myndin snýst svo um baráttu, eða kannski betur lýst sem ævintýri vísindamannanna að ná aftur stolnu vélunum. Skil milli draums og vöku eru óskýr og verða margir fyrir barðinu á þeim sem stálu DC mini. 
Segi nú ekki meir um söguþráðinni til að spilla ekki gamaninu!

Mér fannst þetta stórskemmtileg mynd. Ég horfi nú alveg á anime myndir og get sagt að litirnir, tæknin og hve mikið var lagt í útlit á þessari mynd var til fyrirmyndar. Þetta var sjúklega vel gert! Frabært ímyndunarafl hjá þeim sem sáu um myndina. Bara dæmi um eitthvað sem mér fannst rosa flott voru skrúðgangan sem kom oft fyrir í myndinni, þegar Paprika snerti loftið, sem var síðan gler og molnaði niður. Fiðrildin, sirkusinn. Þegar Paprika hoppaði á milli útlits í draumnunum og svo mætti lengi telja. Mér fannst draumaheimurinn rosalega flottur. Einnig fannst mér atriðin þar sem mörkin milli raunveruleika og draums voru óljós mjög töff!

Mér fannst hugmyndin af myndinni einstaklega góð (þá, þú veist, bókin). En hins vegar fannst mér hún hálf ruglingsleg á tímapunkti og ég varð eiginlega að spóla til baka til að skilja hvað var í gangi. Það hversu ruglingsleg ún var var samt töff, því þetta á að túlka draumaheim, sem er venjulega ekkert venjulegur ;). Ýmsar holur voru í plottinu og margar spurningar poppuðu upp. Til dæmis má nefna að ég skildi ekki afhverju mennirnir stálu DC mini og hvernig í ósköpunum Himuro dróst inn í allt þetta rugl hjá þeim. Ég set svo sem ekkert sérstaklega út á það þar sem ég er að giska að það sé viljandi gert, til að halda uppi svona "mystery" yfir allri tækninni. Fylla í eyður sjálfur. En sumt hefði ég nú alveg viljað fá svarað. En hvað um það. En annars fannst mér sagan mjög skemmtileg, þó ruglingsleg væri. :)
    Reyndar þá fannst mér vanta eitthvað uppá endinn. Ok hann var fínn, en það er samt svona eitthvað sem mér fannst vanta, get ekki alveg sagt til um það.
    Persónusköpun í myndinni var ágæt, ekkert til að hrópa húrra fyrir, en meira var lagt í söguna sjálfa og útlit myndarinnar. Venjulega færi það smá í mig, en mér fannst þetta svo sjúlega töff mynd að það var svo sem allt í lagi :D.
    Annars fannst mér raddleikkonan Megumi Hayashibara, sem sá um að tala fyrir Chiba/Paprika, eiga hrós skilið. Því þó þetta sé í raun "sami" karakter, þá samt ekki. Náði að vera lífsglaða og skemmtilega Paprika, en einnig að ná hvernig Chiba var alvarleg og róleg.

Tónlistin í myndinni var snilld. Susumu Hirasawa sá um hana. Mér án gríns fannst tónlistin svo mikil snilld að ég hlóð henni niður! Rosa skemmtileg lög! En Hirasawa er raftónlistmaður og hefur séð um tónlistina í öðrum myndum hjá Satoshi Kon. Mér fannst tónlistin einmitt passa svo vel inn í myndina því hún var frekar spes, passaði vel í mynd um drauma. Nokkur þessara laga eru, tjah, í raun sama lagið nema breytt rosa mikið. Mér fannst þetta lag alveg sérstaklega skemmtilegt:


Í stuttu máli: Mjög flott og litrík mynd en vantaði svolítið upp á plottið sjálft. Tónlist flott. Gæti samt verið of ruglandi mynd fyrir suma.

Skelli einum trailer í endann ;)

Tuesday, August 31, 2010

Le Fabuleux Destin d'Amélie Poulain

Núna um helgina dreif ég loksins í því að horfa á Amélie eða með fullum titli Le Fabuleux Destin d'Amélie Poulain. Nú hafði ég séð þessa mynd (eða allavega hluta úr henni) einhverntímann, en mundi ekki neitt eftir henni.  Ég smellti henni í spilarann og eftir að hafa horft á hana furðaði ég mig afhverju í ósköpunum þessi mynd hefði farið svona lengi framhjá mér! Hún var tær snilld!
Amélie var fyrst sýnd árið 2001 og er leikstýrð af franska leikstjóranum Jean-Pierre Jeunet. Hún var tilnefnd til fjölda verðlauna, meðal annars fimm óskarverðlauna!

Amélie fjallar sem sagt um stúlku að nafni Amélie Poulain sem vinnur á kaffihúsi/bari. Hún var alin upp við frekar leiðinlegar aðstæður. Pabbi hennar var kaldur læknir sem snerti hana aðeins þegar hann athugaði heilsu hennar (sem hann endaði með að túlka sem hjartasjúkdóm því hjarta hennar hamaðist við spenninginn að eiga í samskiptum við hann). Mamma hennar var með veikar taugar, spennt og reiddist auðveldlega, hún dó hryllilegum dauðdaga fyrir framan Amélie. Hún flytur seinna út og gerist þjónn. En líf hennar breytist svo sannarlega þegar hún finnur kassa fullan af gersemum ungs drengs fyrir löngu. Hún finnur drenginn (nú eldri maður) og breytir þetta lífi hans. Eftir þetta ákveður hún að hjálpa fleirum og gerir hún það á stórskemmtilegan hátt með ótrúlegustu aðferðum! Amélie verður síðan hrifin af Nino, ungum manni sem hún sér oft hirða rifnar ljómyndir úr rusli hjá myndavélabás. Hún finnur myndaalbúmið hans og er það byrjunin af stórskemmtilegri ástarsögu!

Amélie má eiga það að hún skildi eftir risastórt bros á vörum mínum eftir að hún var búin! Hef hugsanlega aldrei séð mynd sem lét mig vera svona glaða í endann! :)
    Það sem ég byrja á að segja frá er hve litirnir í myndinni voru flottir og líflegir! Greinilega voru aðallitlirnir grænn og rauður í myndinni og kom það rosalega vel út!  Mér fannst einstaklega skemmtilegt líka hvernig hlutir, eins og lampi eða myndir vöknuðu til lífsins eða það þegar sjónvarpið sagði sögu. Rosa sætt!
    Sagan sjálf var æði en leikararnir eiga rosa hrós skilið fyrir frammistöðuna, sérstaklega Audrey Tautou sem lék Amélie sjálfa, en hún var gjörsamlega frábær í þessu hlutverki! Hún náði þessum karakter svo vel, þessi feimna, svolítið barnalega ævintýragjarna og góðhjartaða Amélie. Ég einfaldlega get ekki ímyndað mér betri leikkonu í þetta hlutverk :)
Mér fannst persónan Amélie mjög athyglisverð út af fyrir sig. Hún er persóna sem hugsar í rauninni um alla í kring um sig en hunsar sín eigin vandamál. Síðan þegar kemur að því að hún þarf í rauninni að gera eitthvað fyrir sjálfa sig þá gengur það mun verr heldur en það sem hún gerir fyrir aðra.
Talandi um persónur! Rosalega fannst mér gaman að persónunum í myndinni! Hvort sem það var Nino, brothætti maðurinn, blindi maðurinn, ex-sircuskonan, konan sem trúði að allt væri að henni, stalkerinn og svo framleiðis. Frábært, frábært! Sömuleiðis fannst mér mjög skemmtileg nálgun á hvernig persónum var lýst. Dæmi má nefna þegar var verið að lýsa litlum hlutum sem þau elska, sem voru t.d að fleyta kerlingar, dýfa hendinni í poka af hrísgrjónum, smáatriði í bíómyndum, borða kjúkling og svo framveigis. Mjög gaman af því :)
    Verð samt að segja bara hvað þessi mynd var almennt skemmtileg og fyndin! Dæmi má nefna með gullfiskinn sem vildi deyja, garðálfinn sem ferðaðist um heiminn, símtalið við klámbúðina, uppgötvunin á hve sköllótti maðurinn var, hrekkirnir hennar Amélie á kaupmanninum og ég gæti lengi talið. Síðan voru náttúrulega bara þessi atriði sem fengu mann einfaldlega til að brosa, t.d. atriðið með blinda manninum
    Síðast, en ekki síst nefni ég tónlistina! Hún var rosa sæt og falleg. Gaf myndinni skemmtilegan blæ! Mér fannst þessi lög sérstaklega flott :Lag 1 og lag 2

 Sko, þessi mynd var æði! Hún má eiga heima á topp 10 listanum mínum, án efa. Trúi ekki að ég hafi ekki séð hana fyrr! Mæli án efa með henni og langar mig satt að segja að horfa á hana aftur fljótlega! :D

Skelli einum sætum trailer í endann, fyrir þá sem hafa áhuga
Linkur á trailer-inn ;)

Thursday, August 26, 2010

Uppáhalds myndirnar mínar :)

Jæja nú er komið að minni fyrstu færslu hér á blogginu! Fyrsta verkefni mitt hér mun vera að segja aðeins frá uppáhalds kvikmyndum mínum. En veistu, það er bara erfiðara en það hljómar! Nú hef ég setið hér síðustu daga að brjóta heilann um hvað séu uppáhalds myndirnar mínar og var þetta erfitt val!
Ég mun ekki hafa þessar myndir í neinni röð, alveg handahófskennt! Ég get alls ekki ákveðið hver er best. Ég á fullt af myndum sem ég gjörsamlega elska! Ég ákvað samt að setja fjórar af þessum myndum í bloggið sem ég tel að sé, tjah, topp fjórar hjá mér þó svo að það sé dæmigert að ég breyti um skoðun um leið og ég birti bloggið.


Shichinin no samurai (Sjö samurai-ar)


Ég er mikill áðdáandi Japanska leikstórans Akira Kurosawa og hef ég ekki enn séð mynd frá honum sem mér líkaði ekki! Skelli áreiðanlega inn einu fallegu bloggi um verk eftir hann seinna. En svo ég komi mér að myndinni sjálfri. Ég tel að Shichinin no samurai sé mín uppáhalds mynd eftir hann og er það svo sannarlega ekki að ástæðulausu!
Ég sá þessa mynd fyrst fyrir nokkrum árum heima hjá pabba. Hann vildi meina að þetta væri geðveik mynd og ég yrði að sjá hana. Hann sannfærði mig og ég horfði nú á hana, ekki með miklar væntingar. En hvað! Ég var gjörsamlega heilluð eftir að hún hafði klárast! Þvílík mynd!
    Myndin fjallar sem sagt um það í stuttu máli þegar fátækir bændur bregðast við yfirvofandi innrás ræningja á þorp þeirra með því að ráða sjö samurai-a til þess að vernda þorpið sitt. Myndin snýst svo um undirbúning samurai-anna, líf bændanna ásamt smá innsýn á hverjir samurai-arnir sjálfir eru. Auðvitað  eru síðan frábærar bardagasendur þar sem samurai-arnir berjast hetjulega, ásamt bændunum, gegn ræningjunum.
    En af hverju er þetta ein af mínum uppáhaldsmyndum? Það eru nú nokkrar ástæður fyrir því. Ég gjörsamlega elskaði persónusköpunina í þessari mynd. Það var gamli samurai-inn sem litið var upp til, ungi samurai-inn sem enn var að fóta sig í lífinu, ruddinn/svarti sauðurinn, sá rólegi, brandarakallinn, bændurnir, og svo gæti ég lengi talið. En allar þessar persónur geta unnið saman þrátt fyrir hver ólíkar þær eru og er myndin samin þannig að allir fá að láta ljós sitt skína og hafa sinn tilgang. Sagan sjálf er náttúrulega mjög skemmtileg ásamt þvi einfaldlega hve mikið er lagt í þessa mynd.
Gaman má geta að það er skot í myndinni, sem varir líklega í svona eina sekúndu, sem er í uppáhaldi. Það er þegar gamli þorpsstjórinn situr í myllunni sinni með bambusspjótið sitt. Það má sjá sólargeislana skína inn um vegginn. Þótt þetta skot sé svona stutt þýðir það svo mikið. Gamli maðurinn er svo ákveðinn á sínu!! Heillaði mig algerlega!! Sagði svo margt!
    Ef þú hefur aldrei horft á Kurosawa mynd þá mæli ég klárlega með því að þú byrjir á þessu meistaraverki! Og ekki örvænta þó hún sé snefil löng - þessir tæplega fjórir tímar líða eins og kveikt sé á eldspýtu.

Requiem for a Dream

Requiem for a Dream (2000) var leikstýrð af Darren Aronofsky. Ég man ekkert hvernær ég sá þessa mynd fyrst. En ég man svo sannarlega hvernig ég brást við henni. Nú hef ég séð hana svona þrisvar, fjórum sinnum (hitti einhvern veginn alltaf á hana þegar hún er í sjónvarpinu...) og hugsa ég alltaf í enda myndarinnar um hve frábær þessi mynd var. Þetta er mynd sem virkilega situr eftir í manni. 
Myndin snýst í kringum fjórar manneskjur sem allar eru háðar eiturlyfjum. Harry, Marion, Tyrone og Sara, mömmu Harry. Þessar manneskjur eiga sér allar drauma og vonir í lífinu í byrjun myndarinnar. En þegar líður á myndina er sýnt hvernig neysla þeirra fer úr böndunum og fer að stjórna lífi þeirra og draumar þeirra verða að engu.
    Þessi mynd er rosaleg. Rosaleg. Get ekki sagt annað! Það sem ég elska hugsanlega mest við myndina er sagan sjálf og hvernig hún var túlkuð í leik. Hvernig það er sýnt allt gott í byrjun en síðan drauma þeirra hægt og rólega fara til fjandans. Mér finnst þetta ekki þessi hefðbundna "ekki fara í dóp" mynd. En aðalástæðan fyrir því að hún er aðeins öðruvísi er líklega vegna sögu gömlu konunnar sem langar bara að grennast en endar sem fíkill. Síðan var leikurinn til fyrirmyndar, Ellen Burstyn fékk einmitt óskartilnefningu fyrir túlkun sína á móður Harry og skil ég það vel. Hún náði að fara frá brosmildu gömlu konunni yfir í skemmda manneskju í endanum. Nefni dæmi um það sem mér fannst flott voru samskipti Harry og Marion í lok myndarinnar. Það var rosa tilfinningaþrungið og fannst mér virkilega sýna hvernig komið var fyrir persónunum.
    Það var samt líka margt við myndatökuna sem mér fannst flott. Stuttu senurnar (ef kalla það má senu?) þegar þau eru að fá sér eiturlyf svo mjög flottar, þ.e. þegar þau undirbúa þau og innbyrða, augun víkka, áhrif. Mjög töff. Síðan var óspart notaður skiptur skjár sem mér fannst allavega koma mjög vel út.
    Síðan má ekki gleyma tónlistinni, en hún gerði mikið fyrir myndina. Notkunin á sinfóníuverkinu eftir Clint Mansell (Lux Aeterna?) var svo flott. Gat kallað fram áhrif sem hefði klárlega ekki verið til staðar nema tónlistin hefðu magnað þau!
    Já þetta er mynd sem ég mæli með fyrir alla, án efa!


Mononoke-hime

Mononoke-hime, eða Princess Mononoke á ensku er án efa ein af mínum uppáhaldsmyndum. Hún er gerð af Japanska animation leikstjóranum Hayao Miyazaki árið 1997 og er Miyazaki talinn vera einn sá færasti í þeim geira. Ég er rosalega hrifin af verkum eftir hann. Mæli með að fólk tjekki á honum ef það hefur ekki gert það. En nú sný ég mér að Mononoke-hime!
    Ég hafði alveg heyrt um þessa mynd en vissi ekkert um hvað hún var (hvað þá að hún væri teiknuð) en ákvað að tjekka á henni. Nú hef ég horft á þessa mynd tvisvar sinnum og fannst hún í bæði skiptin æðisleg!
Myndin fjallar í stuttu máli um dreng sem heitir Ashitaka, en á honum hvílir bölvun sem hann vill gjarnan losna við. Hann ferðast langt frá þorpi sínu og hittir á ferð sinni stúlku, San,  sem alin hefur verið upp af úlfum. Hann endar í Járnþorpinu eftir að hafa bjargað særðum mönnum og kemst að því að þorpið er í stríði gegn dýrnum í skóginum en þorpsbúar eru að eyðileggja skóginn og drepa dýrin. Hann flækist síðan í deilur þessara aðila og lendir í ævintýrum.
    Nú sést það kannski hér á undan í blogginu að ég elska góða persónusköpun. Mér finnst það einfaldlega lykilatriði í myndum. Þessi mynd er með frábærar persónur. Auðkennandi er auðvitað San, en hún er sjálfstæð stúlka sem lætur ekki segja sér hvað hún á að gera. Mestu skiptir hana að bjarga dýrunum og skóginum. Ashitaka er góðhjartaður og vill að allir lifi í sátt og samlyndi. Hann mismunar ekki. En það sem mér finnst einstakt í þessari mynd er að það er enginn augljós "vondur kall". Það hafa allir eitthvað gott og vont í sér. Þó Lady Eboshi, sem er leiðtogi í járnþorpinu, sé dregin upp sem "vondi kallinn" þá hefur hún góðar ástæður. Hún er að drepa dýrin, brenna skóginn, gefa skít í guðina, en það er SAMT eiginlega ekki hægt að líka illa við hana. Hún gerir þetta fyir fólkið, hún gefur því annað tækifæri í lífinu, vændiskonur, holdsveikir menn og óheppnir. Hún hjálpar þeim. Þannig hún er t.d. að gera vonda hluti, en samt í þágu góðs. æj þetta er svo sem ekkert vel rökstutt hjá mér. En mér fannst það mjög flott.
    Það eru augljós skilaboð í myndinni um umhverfisvernd og hvernig fólk er hætt að treysta á guðina (sbr. hvernig þau bera enga virðingu fyrir dýrinum, sem eru einskonar verndarar skógarins).
    Myndin sjálf er náttúrulega stórglæsileg út af fyrir sig! Það er greinilega gífurlega mikil vinna lögð í hana! Teikningarnar og öllu litlu smáatriðin. Svo flott! Alveg frá stórum og dularfullum skóginum til litríkra flugna sem sveima um. Það er allt svo fíngert og vandað. 
Þetta er klárlega mynd sem ég mæli með að fólk horfi á og vona að staðreyndin að hún er á japönsku og teiknuð ekki láta stoppa sig. :)

A Clockwork Orange


Classic mynd frá Stanley Kubrick sem var sýnd árið 1971 en svo tekin til baka af Kubrick sjálfum í Bretlandi eftir að myndinni var kennt um fjöldann allan af klíkum sem höfðu myndast í Bretlandi með sama tilgang og klíka Alex. Þessi mynd er ofbeldisfull, gróf, skrítin, ég neita því ekki! Þetta er svona mynd sem hér annað hvort líkar ekki við og finnst viðbjóðsleg eða þá að þér finnst hún meiriháttar. En það skiptir ekki máli hvaða skoðun þú hefur á henni, allir geta verið sammála um að þessi mynd er ógleymanleg og ef níunda sinfónía Beethovens heyrist þá hugsa ég um A Clockwork Orange.
    Þessi mynd er um unga manninn Alex sem er í  klíku sem fer um bæinn að lemja, nauðga, pynta og drepa. Alex endar síðan í fangelsi en fær tækifæri til að sleppa út fyrr með því að bara í "meðferð" gegn ofbeldi og kynlífi.
    En það eru samt ákveðnar spurningar sem skoppa upp við áhorf myndarinnar. Er maður, sem er neyddur til þess að vera góður, betri en sá sem er illur? Þessi óumtalaði mannleiki, valið til þess að ákveða hvað er rétt og rangt í hverju sinni. Hvað er að vera góður og hvað er að vera vondur maður. Alex er augljóslega vondur maður en samt sem áður líkar áhorfandanum vel við hann. Maður er að horfa á myndina frá hans sjónarhorni og því tekur maður afstöðu til hans. Áhorfandinn er oft settur í þá stöðu að Alex gerir eitthvað sem er augljóslega rangt, en maður vonar samt að hann sleppi frá því sem er að gerast við hann. Það er ekki oft þar sem tekst vel að láta áhorfandann halda með "vonda kallinum", manninum sem gerir virkilega ljóta hluti við fólk sem á það engan veginn skilið!
Ég lík svo umfjölluninni á A Clockwork Orange með því að benda á hve tónlistin er listilega vel notuð! Beethoven er t.d. er óspart notaður (enda uppáhald Alex) í ótrúlegustu senum, hvort sem það er kynlíf, pyntingar eða hvað það nú er. Tónlistin gerir mikið, mikið fyrir myndina!