Núna um daginn horfði ég á myndina Paprika sem kom út árið 2006 og var leikstýrð að Satoshi Kon. Satoshi Kon var einmitt að deyja um daginn, sem mér þykir leitt, því þetta var greinilega hæfileikamaður á ferð!
Paprika er japönsk anime mynd byggð á skáldsögu Yasutaka Tsutsui. Myndin hefur víða hlotið lof, en auðvitað líka gagnrýni.
Satoshi Kon er m.a. þekktur fyrir myndirnar Millenium Actress, Tokyo Godfathers og þættina Paranoia Agent.
Í myndinni hafa vísindamenn fundið upp tæki sem heitir DC mini og með því kemst fólk inn í drauma annarra, séð þeirra innstu hugsanir og langanir. Aðallhetjan í myndinni er Dr. Atsuko Chiba sem á sér svona "alter ego" sem hún notast í draumaheimunum til þess að lækna sjúklinga, ólöglega með hjálp DC mini. Hún er ein af þeim sem þróuðu DC mini, ásamt offitusjúlkingnum og snillingnum, Dr. Kosaku Tokita. Enn einn daginn komast þau að því að þrjár frumgerðir af vélinni hafa verið stolnar. Þetta er grafalvarlegt mál, þar sem hægt er að ráðast inn í drauma annars fólks, jafnvel í vöku, og planta draumum eða gera það geðbilað. Myndin snýst svo um baráttu, eða kannski betur lýst sem ævintýri vísindamannanna að ná aftur stolnu vélunum. Skil milli draums og vöku eru óskýr og verða margir fyrir barðinu á þeim sem stálu DC mini.
Segi nú ekki meir um söguþráðinni til að spilla ekki gamaninu!
Mér fannst þetta stórskemmtileg mynd. Ég horfi nú alveg á anime myndir og get sagt að litirnir, tæknin og hve mikið var lagt í útlit á þessari mynd var til fyrirmyndar. Þetta var sjúklega vel gert! Frabært ímyndunarafl hjá þeim sem sáu um myndina. Bara dæmi um eitthvað sem mér fannst rosa flott voru skrúðgangan sem kom oft fyrir í myndinni, þegar Paprika snerti loftið, sem var síðan gler og molnaði niður. Fiðrildin, sirkusinn. Þegar Paprika hoppaði á milli útlits í draumnunum og svo mætti lengi telja. Mér fannst draumaheimurinn rosalega flottur. Einnig fannst mér atriðin þar sem mörkin milli raunveruleika og draums voru óljós mjög töff!
Mér fannst hugmyndin af myndinni einstaklega góð (þá, þú veist, bókin). En hins vegar fannst mér hún hálf ruglingsleg á tímapunkti og ég varð eiginlega að spóla til baka til að skilja hvað var í gangi. Það hversu ruglingsleg ún var var samt töff, því þetta á að túlka draumaheim, sem er venjulega ekkert venjulegur ;). Ýmsar holur voru í plottinu og margar spurningar poppuðu upp. Til dæmis má nefna að ég skildi ekki afhverju mennirnir stálu DC mini og hvernig í ósköpunum Himuro dróst inn í allt þetta rugl hjá þeim. Ég set svo sem ekkert sérstaklega út á það þar sem ég er að giska að það sé viljandi gert, til að halda uppi svona "mystery" yfir allri tækninni. Fylla í eyður sjálfur. En sumt hefði ég nú alveg viljað fá svarað. En hvað um það. En annars fannst mér sagan mjög skemmtileg, þó ruglingsleg væri. :)
Reyndar þá fannst mér vanta eitthvað uppá endinn. Ok hann var fínn, en það er samt svona eitthvað sem mér fannst vanta, get ekki alveg sagt til um það.
Persónusköpun í myndinni var ágæt, ekkert til að hrópa húrra fyrir, en meira var lagt í söguna sjálfa og útlit myndarinnar. Venjulega færi það smá í mig, en mér fannst þetta svo sjúlega töff mynd að það var svo sem allt í lagi :D.
Annars fannst mér raddleikkonan Megumi Hayashibara, sem sá um að tala fyrir Chiba/Paprika, eiga hrós skilið. Því þó þetta sé í raun "sami" karakter, þá samt ekki. Náði að vera lífsglaða og skemmtilega Paprika, en einnig að ná hvernig Chiba var alvarleg og róleg.
Tónlistin í myndinni var snilld. Susumu Hirasawa sá um hana. Mér án gríns fannst tónlistin svo mikil snilld að ég hlóð henni niður! Rosa skemmtileg lög! En Hirasawa er raftónlistmaður og hefur séð um tónlistina í öðrum myndum hjá Satoshi Kon. Mér fannst tónlistin einmitt passa svo vel inn í myndina því hún var frekar spes, passaði vel í mynd um drauma. Nokkur þessara laga eru, tjah, í raun sama lagið nema breytt rosa mikið. Mér fannst þetta lag alveg sérstaklega skemmtilegt:
Í stuttu máli: Mjög flott og litrík mynd en vantaði svolítið upp á plottið sjálft. Tónlist flott. Gæti samt verið of ruglandi mynd fyrir suma.
Skelli einum trailer í endann ;)
Mjög góð færsla. 8 stig.
ReplyDeleteÉg vissi ekki að hann Satoshi Kon væri dáinn. Það er þvílíkur bömmer. Þetta er samt eina myndin hans sem ég er búinn að sjá, en ég hef lengi ætlað að sjá Perfect Blue líka. Síðan var ég bara að heyra um þessa þætti hans núna um daginn, og gæti vel hugsað mér að kíkja á þá (þeir hljóma samt stórfurðulega).
Varðandi trailerinn, þá er hægt að stilla stærðina á honum þannig að hann passi í dálkinn. Ég skil samt vel ef þú vilt hafa hann í sem bestum gæðum frekar en að láta hann smellpassa.