Friday, November 5, 2010

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo er þýsk mynd leikstýrð af Uli Edel árið 1981 og er byggð á sannri sögu. Myndin Fjallar um 13/14 ára stelpu sem heitir Christaine F. Hana langar rosalega að prófa nýjasta skemmtistaðinn sem allir eru að tala um og fær vinkonu sína til þess að fara með sig þangað. Það má segja að þetta breyti lífi hennar svo sannarlega. Þetta kvöld hittir hún nýtt fólk, fólk í dópi. Hún kynnist fólki sem hún fer að hanga með mikið. Fyrsta kvöldið er henni boðið upp á töflur. Í fyrstu neitar hún pent en endar með því að taka töflurnar. Þetta var byrjunin á dópvandamáli þessara stelpu. Mamma hennar hefur hitt nýjan mann, og hefur því engann tíma til þess að uppgötva(!!) vandamál dóttur sinnar.
Christiane hittir Detlev, en þau verða rosa ástfangin. En einn daginn byrjar Detlev á "H", eða heróíni. Þau hætta saman um tíma (byrja samt aftur saman), en fljótlega fer Christiane að prófa sig lengra í dópi og endar í heróíni eins og allir vinir hennar. Líf hennar tók að snúast um næsta skammt. Að eyða nóttum með vinum sínum í eiturlyjavímu. Festist algerlega í dópinu. Allt hættir að skipta máli þegar fráhvarfseinkennin koma. Myndin fjallar síðan um baráttu þessara ungu stelpu og fólksins sem hún hengur með.

Jæja, mér fannst þetta flott mynd! Það er eitthvað við svona dópmyndir. Annað hvort ná þær að koma skilaboðunum á framfæri eða verða asnalegar(ekki rétta orðið, een). En Wir Kinder vom Bahnhof Zoo kom boðskapnum vel á framfæri(þó það væri ekki aðaláherslan)... dóp er hræðilegt!
En ég ætla ekki að tala um það, heldur myndina sjálfa.

Það sem mér fannst flott við myndina var ekki myndatakan, ekki effectarnir, ekki tónlistin, ónei, heldur sagan. Myndin er byggð á sannri sögu Christiane F. og var þetta rosaleg saga! Það að 13 ára stelpa lendir í hættulegum heimi dópsins er erfitt áhorf. Að sjá hana hægt og rólega fara frá því að vera venjuleg 13 ára stelpa í að selja sig á götum Berlin til þess að eiga fyrir næsta skammti.
Stelpan sem lék hana Christiane, hún Natja Brunckhorst,  stóð sig mjög vel.
Það sem mér fannst einnig flott við myndina, er að það var ekkert beint verið að ýta undir "dóp er vont" skilaboðin, heldur er einfaldlega sagt sögu Christiane. Það leiðir augljóslega að skilaboðunum sem ég talaði um, en það var samt engan veginn það sem var lagt áherslu á. Áhersla var á að tjá sögu stelpunnar, sem er auðvitað um hræðilega reynslu hennar af heróíni og öðrum eiturlyfjum.
Það var ekkert fegrað hvernig dópheimurinn var sýndur. Það var sýnt hvernig þau veslast upp, verða háð, peningalaus, sum stunda vændi (auðvitað strákarnir líka) og hvernig þau missa eiginlega sín einkenni því allt snýst um að svala fíkninni á heróíni (eða hvað sem þau taka). Það eru sýnd ógeðslegu klósettin, nálastungur, áhrifin, fráhvarfseinkenni og hve erfitt er að losnsa úr klóm fíknarinnar o.fl.

Eitt annað sem mig langar svolítið að benda á sem pirrar mig svo mikið í (alltof) mörgum myndum nú til dags að leikarar sem leika unglinga eru svona 26 ára. En í þessari mynd er fengið stelpu sem er í alvörunni 13/14 ára gömul og kemur það svo miklu miklu betur út og er raunsærra. Ég kaupi það bara ekki þegar það er notað svona gamla leikara í ung hlutverk. Þannig já, það hefði eyðilagt áhrifin ef það hefði ekki verið notuð þessi unga hæfileikaríka dama í hlutverk Christiane.

Ég var mjög forvitin að sjá hvernig fór fyrir Christiane F. í framtíðinni þannig ég fór aðeins á google. Fjölmiðlar hringja stundum í hana til að sjá hvernig hún hefur það. Hún hefur fallið oft aftur í dópfíknina og m.a. verið svift forræði yfir barninu sínu. Já, ekki gott líf, hún náði sér aldrei almennilega eftir þessa lífsreynslu.

Hér einn ágætur trailer fyrir myndina:

Í stuttu máli:
Flott mynd sem tjáir sögu Christiane F. mjög vel. Ef þig langar að sjá hráa mynd með góðri sögu og ef þér finnst allt í lagi að horfa á frekar nasty nálaatriði þá mæli ég með þessari.

1 comment:

  1. Sammála því, þessi var ansi hreint góð. Mér fannst nú tónlistin heldur ekki skemma fyrir - alltaf gaman að Bowie.

    Mjög góð færsla. 8 stig.

    ReplyDelete