Nú var ég um daginn að gera fyrirlestur um Hayao Miyazaki og datt í það að skoða hvaða myndir Joe Hisaishi hefur samið tónlist við (en hann hefur samið tónlist við flestar myndir Miyazaki). En sem sagt, þá rakst ég á Departures af einskærri tilviljun vegna þessa, en Joe Hisaishi samdi tónlistina í henni. Nánar um það seinna. En ég ákvað að horfa á hana því hún leit vel út.
Departures, eða Okuribito á japönsku, var sýnd 2008 og var leikstýrð af Yojiro Takita. Þessi mynd er byggð á bók Aoki Shinmon, Nokanfu Nikki(1993) eða á ensku Coffinman: The Journal of a Buddhist Mortician(2004). Þessi mynd hefur fengið frábæra dóma og vann m.a. Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu myndina árið 2009 og tíu verðlaun á Award of the Japanese cinema. Nokkuð gott!
Departures fjallar um Daigo Kobayashi, en í byrjun er hann sellóleikari í sinfóníuhljómsveit. Því miður er sinfónían leyst upp og hann ákveður að gefast upp á draum sínum, seldi sellóinn sinn (sem kostaði morðfjár => skuldir) og flutti aftur í gamla húsið sitt út í sveit með konu sinni, Mika. Hann fer í leit að vinnu og kemst loks í atvinnuviðtal í von um þægilegt starf a ferðaskrifstofu. En hey! Það er prentvilla í dagblaðinu og hann kemst loks að því að starfið sem um ræðir er í raun og veru svokallaður "encoffiner" (sem ég hef ekki hugmynd hvað er á íslensku… ekki útfararstjóri samt…) En starfið felst í því að þrífa, klæða og undirbúa lík áður en það er sett í kistuna, allt í viðurvist ættingja sem vilja kveðja einstaklinginn í hinsta sinn áður en hann fer yfir í næsta líf. Þetta er s.s. nokkurkonar athöfn/jarðaför. Honum vantar starf, og þetta er vel borgað svo hann tekur við starfinu, en segir ekki Mika frá því, þar sem þessi starfsgrein er fyrirlitin af samfélaginu. Eftir því sem líður á myndina fer hann að virða starfið og líf hans breytist svo sannarlega frá því að hann var sellóleikari Í Tokyo.
Satt að segja var ég mjög sátt með þessa mynd. Mér fannst hún svo ótrúlega falleg, bæði útlitslega og sögulega og ekki er það verra hvað þessi athöfn er falleg líka. Hún er ábyggilega frekar langdregin fyrir suma, en mér fannst hún það reyndar ekki, en nokkuð mikið er um tal og þagnir.
En þó þessi mynd fjalli um mann sem er "encoffiner" er hún alls ekki bara dramatísk. Það komu fullt að skemmtilegum atvikum í myndinni, og svo ég vitni í Kristínu íslenskukennara, maður grætur með einu auganu og hlær með hinu!
Það sem mér fannst rosalega flott við myndina annars er hvenig það var sýnt hvernig fólk "breytist" við dauða. Hvernig það horfir öðruvísi á hlutina og lífið. Áhorfandinn sér hvernig dauði einstaklings getur opnað augu fjölskyldunnar. Eins og til dæmis þegar faðir klæðskiptingsins brast í grát eftir athöfina, því á meðan henni stóð komst hann að því að þrátt fyrir að sonur hans klæddist kvenfötum, er þetta enn sonur hans og maður sér hversu sár sorg hans varð þegar hann uppgötvaði hversu vondur hann hafði verið við hann meðan hann var á lífi. Áhorfandinn sér hvernig fólk getur elskað, hatað eða fyrirgefið við dauðan en að lokum syrgt. Allir hafa sínar leiðir á að takast á við fráfall einstaklings, en það er nokkuð ljóst að þeir sem kveljast mest eru þeir sem eru eftir. Það sést vel í myndinni.
Annars fannst mér góðar pælingar um dauðan sjálfan í myndinni. Til dæmis nefndi Sasaki (yfirmaðurinn) hvernig samfélagið væri að breytast. Allir væru að drífa sig og að starf þeirra hefði eitt sinn verið hlutverk fjölskyldunnar. Honum fannst eins og fólk væri að drífa sig svo í gegnum lífið að það mat fólk og líf þess ekki fyrr en einhver fellur frá (eða jafnvel bara ekki þá).
Persónan Daigo Kobayashi er frábær. Daigo þróast alveg rosalega í gegnum myndina. Í byrjun líst honum ekkert á nýja starfið sitt en fer síðan að sjá það fallega í því. Hann fer í rauninni að líta á sig sem einhvern sem hjálpar fólki á að takast á við sorg með því að hafa brottför þeirra frá heiminum sem hina fullkomnustu og sem hina fegurstu. Hann hættir að líta á þetta sem "ógeðslegt" starf (eins og Mika orðaði) og verður virkilega stoltur af því sem hann gerir. Hann lætur ekki almennt álit á honum stöðva sig, þvi hann hefur fundið eitthvað sem hann er góður í og gerir þetta á ákveðinn hátt sálræna upplifun fyrir hann sjálfan. Hann tekur á við fortíð sína á sinn eigin hátt og verður enn sterkaði manneskja fyrir vikið.
Eins og ég sagði fyrr í blogginu var ég að skoða hvaða myndir Joe Hisaishi hefur samið tónlist fyrir og datt inn á þessa. Joe Hisaishi bara veldur mér ekki vonbrigðum, hver er þetta hægt?! Tónlistin í þessari mynd var svo risarisastór hluti af henni. Ég bara verð að nefna það! Í rauninni var frekar lítil notkun á tónlist í myndinni, aðallega þagnir eða tal en annars smá undirtónlist . En hins vegar þá kom tónlistin alltaf sterk inn þegar var verið að sýna tilfinningar. Vá hvað það virkað vel og undirstrikaði allt sem var verið að reyna sýna í senunni. Ég er 100% viss að margar senurnar hefðu ekki virkað svona vel á mig nema fyrir hvernig tónlistin magnaði tilfinningarnar sem sýndar voru… Vá hvað það var flott! Joe Hisaishi, vel gert! Skelli hér inn eitt af þessum gullfallegu verkum sem hljómuðu í gegnum myndina.
Þessi mynd var mjög góð. Og ég viðurkenni það alveg að ég felldi tár við að horfa á þessa mynd, hún snerti mig bara rosalega mikið. Hún var full af tilfinningum og mér fannst hún koma þeim svo yndislega vel til skila. Ég á einfaldlega bara svolítið erfitt með að skrifa niður afhverju mér fannst hún svona góð, hún er það bara. Samspil fegurðar athafnarinnar ásamt tilfinningum fólksins við dauða og þróun Diago og sögu hans gerði þessa mynd einfaldlega að góðri mynd. Get eiginlega ekki útskýrt það neitt frekar.
Í stuttu mál: Rosalega er ég glöð að hafa rekist á þessa mynd. Sagan í henni er frábær, leikur góður og tónlist til fyrirmyndar. Ef þig langar að sjá góða mynd, þá er þetta hún. Sjaldan sem mynd nær að sýna tilfinningar svona vel.
Skelli trailer svona í endann! :)