Sunday, April 3, 2011

Kvikmyndagerð 2010-2011

Nú var ég búin að hanga á NÁT1 frá því í fjórða bekk og komst síðan að því að ég hataði eðlisfræði og gat ekki hugsað mér að læra hana ár í viðbót (hehe) og skipti því yfir á NÁT2 um jólin í 5. bekk. Kvikmyndagerð var reyndar ekki fyrsta valið mitt, en mig langaði samt jafn mikið í fyrsta og annað val, svo það skipti ekki neinu. Get allavega sagt að það að skipta út eðlifræði fyrir val í kvikmyndagerð var mjög góð ákvörðun! Ég hef skemmt mér konunglega í þessum tímum!

Aðalástæðan fyrir að mér fannst þetta skemmtilegir tímar er auðvitað því við erum að tala um kvikmyndir! En svona án gríns þá lærði ég fullt af skemmtilegum hlutum um tæknilegar hliðar kvikmyndagerðarinnar ásamt góðu yfirliti yfir kvikmyndasöguna.

Mér fannst mjög gaman af því að gera stuttmyndirnar þó ég hafi stundum verið út að aka þar sem ég hef ekki snert myndavél fyrr en í þessum áfanga.
Mér fannst ég læra mest af því að vinna myndinar og taka upp og hefði alveg verið til í að gera fleiri minni verkefni, en þá þarf að hliðra einhverju öðru til þess að þetta sé ekki í einum hrærigraut.

Annars fannst mér mjög gaman að blogga um myndirnar, en ég er kannski bara ein af þeim sem eiga mjög auðvelt með að tjá mig um myndir og blogga. En ég ætla að taka undir með hinum, það mætti fækka bloggstigunum smá, kannski 60? Mér finnst heldur mikið að blogga fyrir 70 stig, en það tekur sjúkan tíma að gera eitt blogg! Horfa á mynd og skrifa um hana étur upp tímann manns og ef maður gerir ekki blogg reglulega þá safnast þetta upp. Hefði allavega átt að vera færri stig núna eftir jól, því páskafríið er snemma! :)

Það sem mér fannst samt mjög gott við að læra um tæknilegu hliðar kvikmyndagerðarinnar var að það ég pæli einhvern veginn mun meira í hvernig mynd er gerð. Einnig fannst mér gaman að bloggunum því þá pældi ég aðeins meira í myndunum. Eins og hvernig hún er tekin og svona
En mér fannst kannski fara frekar mikill tími í FDF, en maður græddi samt alveg á því, svo ég kvarta svo sem ekki :)

Mér fannst miðvikutímarnir mjög skemmtilegir og leikstjóraheimsóknir snilld! Kannski hugmynd að fá einhverja aðra en leikstjóra, kannski klippara, tökumenn eða eitthvað... Ég hefði allavega mjög gaman af því að heyra frá öðrum greinum kvikmyndagerðarinnar.  Mér fannst myndirnar sem valdar voru almennt mjög fínar, þá sérstaklega erlendu myndirnar! Tjah, undantekningar voru Íranska myndin (Siggi… ekki sýna hana aftur, hún var ógeðslega leiðinleg...) og umskurðsmyndin var heldur ekkert spes.

Annars fannst mér það að fá afslátt á RIFF snilld og var góður leikur því ég náði að horfa á fullt af myndum og var sjúklega sátt! Hins vegar finnst mér smá mínus (ekkert mikill samt) að þurfa að borga fullt verð inn á íslensku myndirnar utan skóla, en skil samt mjög vel að það er erfitt að fá afslátt! Mér fannst t.d. ekki gaman að borga fullt á Rokland sem ég fílaði ekkert sérstaklega og hafði ekki áhuga í byrjun á að horfa á. Það er bara svo dýrt og ég á lítinn pening :(

Eitt við námskeiðið var samt hversu mikil vinna fer í að gera e-ð utan skóla. Ég var svo sem alveg að búast við því samt. Síðan fer massívur tími í að gera sjálfar myndirnar og eins og einhver sagði í öðru bloggi, þá finnst mér að þeir hópar sem eru að taka upp/klippa mættu nota miðvikudagstímann til þess að vinna í henni í stað að horfa á myndina (og ekki horfa og blogga um hana heima í staðinn, þá hjálpar það ekkert). Það myndi muna alveg rosalega miklu fyrir hópana! :)

Ég hafði mjög gaman af kvikmyndasögunni!  Mér fannst gaman að læra um hvernig greinin þróaðist og hvernig geirinn er síbreytilegur, sem og að heyra um leikstjóra sem ég vissi ekki um. Síðan skrifaði líka niður smá "örruglegagamanaðhorfaá-lista" af myndum sem voru nefndar voru eða Siggi sýndi klippur úr og ég mun örruglega horfa á í náinni framtíð! En ég væri alveg til í að gera lítil verkefni á myndavélina eins og ég sagði áður en þá þyrfti að hliðra einhverju öðru… En ef þessu yrði bætt inn í núverandi skipulag þá myndi einfaldlega vera allt of mikið að gera í þessu fagi.
Mér fannst gaman að gera handritsverkefnin, þá sérstalega í celtx, eeeeeen það hefði mátt fækka aðeins af þessum litlu (stundum) leiðinlegu (t.d. þjóðsagan) handritaverkefnum og fara þá frekar hraðar í efnið og hafa þá kannski tíma í eitthvað annað í endann á önninni.

Spurningin um hvort það ætti að gefa stig fyrir komment. Sko, mér finnst það mjög sniðug hugmynd og myndi klárlega hvetja fólk til þess að kommenta. Hins vegar sé ég fyrir mér að þetta yrði vesen, því Siggi þyrfti í raun að skoða bloggin og leita af kommentum eða biðja alla um að senda linka af kommentum... Svo þetta gæti farið allt í rugl en klárlega þess virði að prófa ;)

En að lokum, Mér fannst þessir tímar tær snilld, stóðust væntingar mínar og ég skemmti mér konunglega. Ég bið nú ekki um meira! :)

Takk fyrir mig!

1 comment:

  1. Takk fyrir góðar athugasemdir (og aldrei verra að fá smá hrós). Og svo ég hrósi þér nú smá á móti, þá er bloggið þitt í vetur búið að vera sérlega gott og báðir fyrirlestrarnir með því besta sem gert hefur verið í faginu.

    Mér finnst ég alltaf vera að fækka bloggstigunum (einu sinni voru þau 100!) og aðalástæðan fyrir því að ég tími því eiginlega ekki er að þá myndi ég missa af bestu bloggunum. Til dæmis finnst mér bloggin þín bara hafa orðið betri og betri. Ef það hefðu bara verið 50 stig á önn hefði kannski aldrei komið nein Black Swan færsla eða Okuribito. Það hefði mér þótt mikill missir.

    Varðandi handritahlutann, þá veit ég ekki alveg hvort ég myndi tíma að stytta það mikið meira. Kannski smá. En í ár var það t.d. talsvert styttra og markvissara en í fyrra.

    Ég er sammála því að það hefði mátt gera fleiri lítil verkefni með myndavélina og tölvuna. Þá hefðu stóru verkefnin kannski ekki virst eins stór, auk þess sem það hefði bara verið gaman. Ég hefði sérstaklega átt að nýta tækifærið nú þegar hópurinn var svona lítill.

    Varðandi írönsku myndina, þá skal ég alveg játa það að hún var mun skemmtilegri í minningunni (mér fannst hún rosa skemmtileg þegar ég sá hana á kvikmyndahátíð fyrir langalöngu).

    Ég hef lengi ætlað mér að fá annað fagfólk en bara leikstjóra í heimsókn, og eiginlega bara leti og óframfærni í mér sem kom í veg fyrir það. Því miður. En þetta er klárlega markmiðið.

    Takk fyrir góðan blogg-vetur! Þetta hefur verið ánægjuleg lesning.

    ReplyDelete