Monday, January 31, 2011

Kvikmyndagrein

Greinin sem ég valdi að lesa er um Jafar Panahi (hlekkur á grein), en hann er þekktur íranskur leikstjóri og hefur verið mikil umræða um hann og verk hans. Tilefni greinarinnar er að nú nýlega var Panahi dæmdur í sex ára fangelsi og bannað að koma nálægt kvikmyndagerð í tuttugu ár!! Ekki bara það, heldur má hann ekki fara úr landi, ekki tala við fréttamenn, hvorki innlenda né erlenda!

Jafar Panahi
 Tilgreind ástæða fyrir handtöku Panahi var að hann hefði að "plotta" eitthvað gegn öryggi landsins í gegnum kvikmyndir, gegn Íslam og verið með áróður gegn lýðveldi Íslams, sem væri einstaklega óviðeigandi.  En ef ég skildi greinina rétt var hann að gera mynd um atburð sumarið 2009 þar sem þúsundir Írana mótmæltu endurkjöri forsetans.  Benda má á að hann kláraði ekki einu sinni myndina sjálfa, en aðeins um 30% af henni skv. greininni. Ásakanir á hendur hans fannst mér furðulegar og eiga engan rétt á sér, og gefur í raun sýn inn í heim sem ég þekki ekki það vel. Heim þar sem ekki er frjálst að tjá sig, hvorki í orðum, aðgerðum, myndum o.fl.
Mér finnst ótrúlegt að Panahi hafi verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir það eina að búa til kvikmynd sem byggist á raunverulegum atburðum. En þá vaknaði spurningin hjá mér afhverju hann var ekki ákærður eða dæmdur fyrir Offside sem er í raun kvikmynd gegn skorti á frelsi kvenna í Íran.
Það að leikstjóri sé handtekinn fyrir að tjá sig í kvikmynd, sýnir manni hve mikil áhrif kvikmyndir geta haft. Ég vona allavega að Panahi verði látinn laus, en mér eru ömurlegar aðstæður hjá honum og ekki síst það að vera dæmdur fyrir eitthvað sem er í rauninni ekki talið ólöglegt í flestum löndum (ekki það að ég viti neitt um lög í Íran…en).

Úr myndinni Offside


En það er auðvitað ekkert nýtt í sögunni að bannað sé að gera kvikmyndir eða tjáningarfrelsi skert á einn eða annan hátt. En þetta er eitthvað sem mér finnst leiðinlegt að sé enn þann dag í dag og þarf að breyta.
Eins og ég sagði fyrr þekki ég það ekki að skorta frelsi, að geta ekki tjáð mig eða verið sú sem ég er. Mér finnst óhugnanlegt þau völd að geta læst saklausan mann inn í fangelsi í sex ár fyrir það eina að vilja tjá sig um samfélagið eins og það er. Sýna raunsæa mynd af samfélaginu.
Nú sýnir það sig mjög vel í fréttum undanfarnar vikur að fólk er farið að segja sínar skoðanir. Til dæmis uppreisnin í Egyptalandi akkurat núna og í Tunis. Fólk er farið að sýna hvað það vill, og það er augljóslega ekki kúgun af hálfu stjórnvaldanna!

Úr myndinni The Mirror
 Annars eftir að hafa lesið þessa grein kviknaði áhugi á að sjá myndir eftir Panahi. Ég reyndar komst að því eftir að ég las greinina að ég hef séð Offside eftir hann, sem er mynd um konur sem vilja fara á fótboltaleik og dulbúa sig sem karlmenn í þeim tilgangi. Það er orðið frekar langt síðan ég sá hana, en þessi mynd var frábær! Væri svo sem alveg til í að horfa á hana aftur einhverntímann.
Annars finnst mér The Mirror hljóma áhugaverð, en hún fjallar um stelpu á leið heim úr skólanum, nem að kvikmyndagerðamennirnir týna henni og heyra bara hljóðið í míkrafóninum hennar. Hljómar athyglisvert! Svo ég mun pottþétt horfa á fleiri myndir frá þessum leikstjóra! :)

Howl's Moving Castle

Nú ákvað ég að neyða systur mína að horfa á Howl's Moving Castle (jp: Hauru no ugoku shiro) um daginn sem er leikstýrð af Hayao Miyasaki árið 2004 og var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta teiknimyndin. Ég gjörsamlega elska myndirnar hans Miyazaki og er þessi í miklu uppáhaldi og langaði að blogga smá um hana :)

Aðalsöguhetjan er stelpa sem heitir Sophie og er hattargerðarkona! Einn daginn er hún að labba heim úr vinnunni og hittir galdramanninn Howl, og hefjast ævintýri hennar þá! Seinna um kvöldið kemur vonda nornin "The Witch of the Wastes" og leggur á hana bölvun sem hún mun aldrei geta sagt frá. Fær hún þá líkama og útlit gamallar konu! Augljóslega í sjokki yfir því sem gerðist ákveður hún að fara á brott úr bænum, þar sem enginn mun trúa henni. Hún fer í óbyggðirnar á leið sinni úr bænum og bjargar þá fyrir einskæra tilviljun fuglahræðu sem er þó gædd lífi! Fuglahræðan hjálpar henni að leita skjóls, sem vill svo til að er hinn hreyfanlegi kastali Howls. Nú byrja ævintýri Sophie svo sannarlega að hefjast. Barátta hennar að losna við bölvunina, þrífa hjá Howl (sem er ekki auðvelt verk), hjálpa til ásamt því að lifa lífinu eins og hún hefur aldrei leyft sér að lifa. Einnig er saga Howls sögð í myndinni, en hann er ekki allur sem hann er séður. Auðvitað er myndin svo sæt ástarsaga Howl og Sophie og raunir þeirra.

Það sem ég elska mest við þessa mynd er sagan! Sagan er byggð á samnefndri bók eftir Diana Wynne Jones og hef ég ekki lesið hana. En þrátt fyrir það kolféll ég fyrir sögunni.  Ekkert var haldið aftur af ímyndunaraflinu og var opnað ótrúlegan heim þar sem galdrar og stríð eru daglegt líf.
Síðan er auðvelt að sjá fullt af einkennum Miyazaki í þessari mynd! Sem dæmi má nefna strerku kvenpersónuna, þú sérð furðurleg faratæki og flugvélar, opin rými, hræðilegar afleiðingar stíðs, galdrar og ég gæti lengi talið. Ég elska þessi einkenni Miyazaki og finnst einstaklega gaman að sjá hve fast hann stendur við þau þemu sem hann heldur uppá. 

Sjúklega flotta herbergið hans Howl
Mér fannst persónusköpunin fín í þessari mynd :) Ekki voru allar persónunar fullkomnar, en það er allt í fínasta lagi! Mér fannst bestu persónunar líklega vera Sophie, Calicifer, The Witch of the Wastes og Howl að sumu leiti.
En svo ég tali aðeins um Sophie, sem mér fannst besta persónan :)
Sophie er frábær karakter og heillaði mig um leið! Hún er stelpa sem einhvernveginn festist í hlutverki sem henni líkaði ekki. Var elst sytranna og öll ábyrgð lenti á henni þegar faðirinn féll frá og gat hún ekki lifað sínu lífi eins og henni langaði, heldur var föst inn í hattabúðinni. Eftir að hún breyttist í gamla konu lifnaði svo yfir henni. Hún var í raun frjáls frá öllum ábyrgðum og ferðaðist fyrir sig sjálfa, ekki bundin skyldum við neina aðra. Eftir því sem líður á myndina sjáum við hvernig hún þroskast og breytist í það að bæla sig niður fyrir aðra í að blómstra og lifa í galdaheimi Howls, sem hún gat aldrei ímyndað sér áður! Hún áleit sig ljóta og óæðri öðrum fyrr í myndinni en  þetta allt saman hverfur þegar líður á myndina. 

Hreyfanlegi kastalinn hans Howl
Myndin sjálf er samt svo stórkostlega falleg! Hún var svo yndislega litrík og flott og ekkert sparað í smáatriði í myndinni. Veit bara ekki alveg hvernig á að lýsa því! :) Borgirnar sem hafa verið búnar til og allt sem þeim tilheyrir var æði! Síðan langar mig að nefna herbergið hans Howls, en það var algjör snilld! Fullt af furðulegum smáatriðum sem samt sýnir á sinn hátt hvað Howl er furðulegur gaur hehe! Og auðvitað má ekki gleyma kastalanum sjálfum, en hann er svo ruglingslegur en á sama tíma glæsilegur! Hann var alveg unninn í tölvu og ég horfði einmitt á smá aukaefni með myndinni og það var gaman að sjá hve mikil vinna var lögð í þennan blessaða kastala!  :)

oog auðvitað að lokum verð ég að nefna tónlistina í myndinni eftir Joe Hisashi, sem er auðvitað frábær! Mér finnst hún gera svo mikið fyrir andrúmsloftið í myndinni, hvort sem það er alvarlegt, gaman eða bara venjulegt!  Tónlistin ýtir einstaklega undir töfraleika myndarinnar, sem gerir hana einfaldlega enn betra verk!

Í stuttu máli: Frábær mynd sem ég mæli klárlega með fyrir alla. Teikningar til fyrirmyndar. Sagan æði og tónlistin flott! :)


Thursday, January 20, 2011

Girl With a Pearl Earring

 Nú var ég eins og væntanlega flestir að taka því rólega um jólin. Þá datt ég inn í eina af þessum jóladagskrármyndum sem voru í sjónvarpinu. Allavega myndin var Girl With a Pearl Earring, sem ég hafði alltaf ætlað að sjá en aldrei orðið neitt úr því. ákvað augljóslega að horfa á hana fyrst hún var í sjónvarpinu ;) Ákvað að skella einu stuttu bloggi um hana.

Girl With a Pearl Earring er mynd sem sýnd var 2003 og var leikstýrð af Peter Webber og var myndin m.a. tilnefnd til þrennra óskarsverðlauna. Myndin fjallar um unga konu sem heitir Griet sem vinnur sem vinnukona í Delft(minnir mig) í Hollandi. Hún er ráðin á nýtt heimili þar sem frægi málarinn Johannes Vermeer býr ásamt riiisastórri fjölskyldu. Hún fær venjulegar skyldur að vinna í húsinu, fyrir utan það mikla verkefni að þrífa í vinnustofu Vermeer... sem átti víst að vera rosa merkilegt dæmi. Hún hittir sætan slárarason og verður úr því smá ástarsaga til hliðar. En síðan fara að þróast einhverjar tilfinningar á milli hennar og málarans og er það illa liðið af öllum í kring. Þá sérstaklega konunni hans. Myndin er í raun bara sagan sem endaði á hinu fræga málverki sem er samnefnt myndinni.(mnnir mig) .Talið er sem sagt að Vermeer hafi málað vinnukonuna á heimilinu, en það hefur aldrei verið staðfest. 

Alveg hreinskilnislega varð ég rosalega fyrir vonbrigðum með þessa mynd. Leit vel út, en var samt bara leiðinleg.
Hún fær eitthvað 7,1 á imdb... sem ég er bara ekki sammála ;)
Kannski er ég bara einstök varðandi þessa mynd, en mér fannst hún ekkert spes.

Myndin var með mjög flotta búninga og flotta sviðsmynd fyrir umhverfið sem átti að vera Delft fyrir mörgum árum, því neita ég ekki! :)
En átti líka greinilega að vera svona "málverkaeffect" í myndinni til þess að láta einstaka senur líta úr fyrir að vera eins og málverk. Jújú, það kom mjög vel út í flestum tilfellum, en stundum fannst mér það feila smá. Man allavega eftir einni senu sem varð asnalega gul. Sem gerði hana ekkert flottari eða neitt!
Annað sem fór í mig var klipping. Það voru nokkrar senur sem hefðu átt að vera klipptar úr myndinni, höfðu nákvæmlega engan tilgang. Hvorki fyrir söguna eða sjónræna upplifun. Bara tímasóun í myndinni. Dæmi: Atriði þar sem málverkakaupandinn sat inn í stofunni sinni að horfa á málverk. Þessi sena hefði svo sem mátt vera, fyrir utan það hvað þessi sena var á algerlega vitlausum stað í myndinni. Hefði mátt vera miklu fyrr! Minnir að þessi sena hafi komið alveg random inn í endann, svona 2 mín áður en myndin var búin. Stórfurðulegt.
Svo voru það leikararnir. Aðalleikararnir voru t.d. Scarlett Johansson og Colin Firth. Bæði frábærir leikarar sem ég ætlaðist mikið af, en þau náðu samt einhvern veginn ekki að heilla mig. Scarlett lét stelpuna verða eins og algerlega tóma dós í hausnum. Átti pottþétt að vera geeeeðveikt djúpur karakter sem var mjög klár en enginn tók eftir því. En ég veit ekki. Mér fannst hún ekki sýna það vel. Bara frekar illa. Karakterinn sagði náttúrulega roosalega lítið í myndinni. En það á samt ekki að hindra það að tjá karakterinn vel ;)

Síðan hann Colin Firth, sem er flottur leikari, náði ekki alveg að komast á flug. Tengdist ekkert málaranum og náði aldrei svona sjarmanum í honum. Hann átti augljóslega að vera svona "einfari" og var það svo greinilegt í myndinni, að ég tengdist honum ekki sem aðalpersónu. Bara sem gæja sem kom inn endrum sinni og var með stutt samtöl um liti eða málverk.
Síðan var ég kannski bara eitthvað hæg þegar ég horfði á myndina en ég náði aldrei almennilega hvort það væri rosalegt chemistry á milli málarans og Griet eða hvort þau væri bara vinir eða eitthvað.
Síðan fannst mér hálflélegt... nei satt að segja frekar mikið feil...að ég hafði miklu meiri áhuga á ástarsögunni um slátrarasoninn og Griet heldur en heimili málarans og líf Griet þar! Er nokkuð viss um að það hafi ekki átt að vera þannig, en mig langaði mun meira að vita hvort það yrði eitthvað úr sambandinu við slátrarann... !

Í stuttu máli: Varð fyrir vonbrigðum með þessa. Klassa leikarar og góðar hugmyndir ná samt ekki að halda henni á lofti. Þó flottir búningar og umhverfi í myndinni.

Skelli trailer svona ef einhver hefur áhuga ;)