Greinin sem ég valdi að lesa er um Jafar Panahi (hlekkur á grein), en hann er þekktur íranskur leikstjóri og hefur verið mikil umræða um hann og verk hans. Tilefni greinarinnar er að nú nýlega var Panahi dæmdur í sex ára fangelsi og bannað að koma nálægt kvikmyndagerð í tuttugu ár!! Ekki bara það, heldur má hann ekki fara úr landi, ekki tala við fréttamenn, hvorki innlenda né erlenda!
Jafar Panahi |
Tilgreind ástæða fyrir handtöku Panahi var að hann hefði að "plotta" eitthvað gegn öryggi landsins í gegnum kvikmyndir, gegn Íslam og verið með áróður gegn lýðveldi Íslams, sem væri einstaklega óviðeigandi. En ef ég skildi greinina rétt var hann að gera mynd um atburð sumarið 2009 þar sem þúsundir Írana mótmæltu endurkjöri forsetans. Benda má á að hann kláraði ekki einu sinni myndina sjálfa, en aðeins um 30% af henni skv. greininni. Ásakanir á hendur hans fannst mér furðulegar og eiga engan rétt á sér, og gefur í raun sýn inn í heim sem ég þekki ekki það vel. Heim þar sem ekki er frjálst að tjá sig, hvorki í orðum, aðgerðum, myndum o.fl.
Mér finnst ótrúlegt að Panahi hafi verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir það eina að búa til kvikmynd sem byggist á raunverulegum atburðum. En þá vaknaði spurningin hjá mér afhverju hann var ekki ákærður eða dæmdur fyrir Offside sem er í raun kvikmynd gegn skorti á frelsi kvenna í Íran.
Það að leikstjóri sé handtekinn fyrir að tjá sig í kvikmynd, sýnir manni hve mikil áhrif kvikmyndir geta haft. Ég vona allavega að Panahi verði látinn laus, en mér eru ömurlegar aðstæður hjá honum og ekki síst það að vera dæmdur fyrir eitthvað sem er í rauninni ekki talið ólöglegt í flestum löndum (ekki það að ég viti neitt um lög í Íran…en).
Úr myndinni Offside |
En það er auðvitað ekkert nýtt í sögunni að bannað sé að gera kvikmyndir eða tjáningarfrelsi skert á einn eða annan hátt. En þetta er eitthvað sem mér finnst leiðinlegt að sé enn þann dag í dag og þarf að breyta.
Eins og ég sagði fyrr þekki ég það ekki að skorta frelsi, að geta ekki tjáð mig eða verið sú sem ég er. Mér finnst óhugnanlegt þau völd að geta læst saklausan mann inn í fangelsi í sex ár fyrir það eina að vilja tjá sig um samfélagið eins og það er. Sýna raunsæa mynd af samfélaginu.
Nú sýnir það sig mjög vel í fréttum undanfarnar vikur að fólk er farið að segja sínar skoðanir. Til dæmis uppreisnin í Egyptalandi akkurat núna og í Tunis. Fólk er farið að sýna hvað það vill, og það er augljóslega ekki kúgun af hálfu stjórnvaldanna!
Úr myndinni The Mirror |
Annars eftir að hafa lesið þessa grein kviknaði áhugi á að sjá myndir eftir Panahi. Ég reyndar komst að því eftir að ég las greinina að ég hef séð Offside eftir hann, sem er mynd um konur sem vilja fara á fótboltaleik og dulbúa sig sem karlmenn í þeim tilgangi. Það er orðið frekar langt síðan ég sá hana, en þessi mynd var frábær! Væri svo sem alveg til í að horfa á hana aftur einhverntímann.
Annars finnst mér The Mirror hljóma áhugaverð, en hún fjallar um stelpu á leið heim úr skólanum, nem að kvikmyndagerðamennirnir týna henni og heyra bara hljóðið í míkrafóninum hennar. Hljómar athyglisvert! Svo ég mun pottþétt horfa á fleiri myndir frá þessum leikstjóra! :)
Flott færsla. 7 stig.
ReplyDelete