Tuesday, November 23, 2010

Þrjár stuttar myndir

Ég ætla að blogga til þess að fá mætingu þann 10. nóvember (held ég). Afsaka hvað þetta kemur seint, en ég var eiginlega búin að gleyma þessu! ;)
En ég horfði á þessar þrjár myndir: Le Ballon Rouge, La rivière du hibou og Dwaj ludzie z szafa. Svo skemmtilega vill til að mér fannst þær allar rosalega skemmtilegar og flottar. Tala aðeins um það.

Le Ballon Rouge

Le Ballon Rouge er leikstýrð af Albert Lamorisse árið 1956. Þessi mynd er rosa krúttleg mynd um lítinn strák sem finnur rauða blöðru. Hann röltir með hana í skólann og aftur heim og passar rosalega vel upp á hana. En síðan þarf hann að sleppa henni því hann má ekki hafa hana heima hjá sér. En hvað!? Blaðran virðist hafa sinn eigin vilja og svífur því aftur til stráksins. Þeir eiga svo hálfgert vinasamband þar sem blaðran eltir strákinn hvert sem hann fer. Síðan leikur hann og blaðran sér á götunum. En allir vilja eiga flotta rauða blöðru eins og strákurinn og er hópur af strákum sem vilja eyðileggja blöðruna og fara langt í því að reyna ná blöðrunni af stráknum.
Mér fannst þetta alveg hreinskilnislega æðisleg mynd! Mér fannst svo margt fallegt í henni! Til dæmis blaðran sjálf í myndinni var mjög flott að því leiti hvernig rauði liturinn stakk sig út úr umhverfinu og gaf henni einskonar sérstöðu hluta í myndinni. Svo fannst mér strákurinn mesta dúlla í heimi! Einnig fannst mér mjög flott hvernig rauða blaðran byrjaði bara sem hlutur í myndinni, eitthvað sem strákurinn vildi leika sér með. En smám saman tók hún að persónugerast og þangað til hún var í rauninni orðin ein af aðalpersónunum. Þetta var ekki lengur hlutur heldur sjálfstætt hugandi blaðra! Mér fannst bara útlitið sjálft á myndinni vera æði. Það var lítið sem ekkert tal, nema nokkrum sinnum eitthvað á frönsku og þegar strákurinn kallaði "ballon?!".
Svo sæt mynd! Mæli svo mikið með henni! :)

La rivière du hibou

La Riviére du hibou er leikstýrð af Robert Enrico árið 1962. Mér fannst þessi flottust af þessum þremur stuttmyndum! Myndin byrjar á flottum skotum af skóginum og kemur loks að aðalpersónunni okkar. Manni sem á að hengja fram af brú fyrir einhvern verknað. Hann skoðar umhverfið (svona ef hann myndi nú sleppa) og hugsar um fjölskyldu sína (giska af myndum... en ég kann ekki frönsku). En vitir menn! Reipið slitnar! Nú hófst barátta hans fyrir lífinu og að komast í burtu frá hermönnunum svo hann geti sameinast fjölskyldu sinni enn á ný. Endirinn er síðan nokkuð góður!
Eins og ég sagði framar, fannst þessi best af þessum þremur. Það var bara svo margt sem ég elskaði í þessari mynd. Vra bara eiginlega heilluð frá fyrstu fallegu skotum af trjám til endans (sem reyndar voru líka tré...en). Sagan virðist ekkert vera neitt spes fyrr en í bláendann, þá sat ég í smá sjokki! Sjúklega góður endir! Maður er látinn halda eitthvað alla myndina þangað til seinustu sekúndurnar þegar allt sem maður hélt áður hrynur!
Hver rammi, hvert skot virðist vera svo yndislega útpælt. Ég bara gat ekki hætt að hugsa um hvað þetta var falleg mynd.

Dwaj ludzie z szafa


Dwaj ludzie z szafa er leikstýrð af Roman Polanski árið 1958, Hún fjallar um, tjah, tvo menn sem koma á undarlegan hátt upp úr sjónum haldandi á skáp með spegli. Restin af myndinni er síðan um ferðalag þeirra um bæ með skápinn ávallt við hönd.
Mér fannst þessi líka skemmtileg! Ok bara fyrsta senan þegar þeir koma upp úr sjónum segir manni að þetta er frekar furðuleg mynd. Allavega, mér fannst þessi mynd klárlega eiga sína spretti. Eins og t.d. eitt skot sem ég verð að minnast á sem mér fannst ótrúlega vel gert, en það er skotið þar sem fiskurinn liggur ofaná speglinum og himininn speglast þar líka og það lítur út fyrir að fiskurinn sé fljúgandi í skýjunum. Of flott!
En kannski það sem mér fannst flottast við myndina er hvernig sagan endurspeglast óbeint, eða, sko. Sagan er ekki sögð beint heldur frekar óbeint, áhorfandinn getur myndað sína eigin skoðun. Sagan getur alveg snúist um hvernig allt gengur á afturfótunum hjá mönnunum vegna þess að þeir eru dröslandi um skáp út um allt. En þetta getur líka verið innlit í lífið í borginni. Kannski er ég bara að oftúlka þetta... :)

Jæja! Mér fannst þetta allt skemmtilegar myndir sem er frekar mikil tilviljun :)

Tuesday, November 16, 2010

Interview with the Vampire - handrit

Jæja, hér kemur stutta bloggið um handritaverkefnið sem við reyndar áttum að skila í gær, en hey! Það kemur nú, þó seint :)

Ég ákvað að horfa á myndina Interview With the Vampire sem er leikstýrð af Neil Jordan árið 1994 og skartar leikurum á við Brad Pitt, Tom Cruise, Antonio Banderas og Kirsten Dunst. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Anne Rice. Las ég handritið eins og eftir fyrirmælum.

Interview With the Vampire fjallar um mann sem heitir Louis. Það væri ekki frásögu færandi nema það að hann er hundgömul vampíra! Í myndinni er fjallað um sögu hans frá því hann "fæddist" sem vampíra og til nútímans og er hann að segja ungum manni frá lífreynslu sinni.
Louis var breyttur í vampíru af Lestat þegar hann var um 24/5 ára gamall og hafði misst konu sína og barn og var niðurbrotinn. Hann ferðast síðan um með Lestat, sem hann líkaði hreinlega ekki við, og drápu fólk (Louis fannst það ekki gaman, ólíktt Lestat). Þegar Louis ætlaði að fara frá honum þá breytti Lestat ungri stúlku, Claudia, í vampríu. Myndin fjallar síðan um lífreynslur þessara þriggja.

Mér fannst þessi mynd fín! Mér fannst sagan skemmtileg og ég fílaði persónurnar! Persónusköpunin var ágæt, það mætti alveg laga hana eitthvað, en það kom mjög vel fram einkenni og persónuleiki hvers og eins. Búningarnir í myndinni voru ruglaðir! Svo flottir! Þá sérstaklega kjólarnir hennar Claudiu, ég var bara ástfangin af þessum kjólum, ekki að það skipti mestu máli, en fannst að það mætti klárlega koma fram! :)
Nú er ég alls ekki aðdáandi Tom Cruise, satt að segja þá þoli ég ekki þennan leikara! En ég bara get ekki hunsað hvað hann var mikil snilld sem Lestat í myndinni, mér fannst hann allavega negla þessa persónu! Mér þykir erfitt að játa það að mér fannst hann ná þessari persónu vel. Lestat var náttúrulega besta persónan í myndinni fyrir utan hana Claudiu, sem mig langar líka að minnast á. Kirsten Dunst er nokkuð ung þarna og finnst mér hún klárlega hafa staðið sig best í myndinni! Brad Pitt hins vegar fannst mér þurr og bara leiðinlegur í þessari mynd. Kannski bara vegna persónunnar... en kannski sökkaði Brad Pitt bara í þessu hlutverki, er ekki viss hvort. Kannski túlkaði hann Louis á þennan hátt, en það bara virkaði ekki í myndinni. Veit bara að hann var sístur þarna.
Eitt samt sem böggaði mig, og gerir enn. Er að ég gjörsamlega fattaði aldrei hvort persóna Antonio Banderas væri vond eða ekki.Var hún vond? Var hún góð? Var hún bæði? Fannst hann alltaf hoppa á milli... En kannski bara því ég var alltaf að stoppa til að lesa handritið sem ruglaði mig.
Eitt að lokum sem mér fannst galli, það var hve sum samtölin voru ótrúlega stirð, væmin og ofleikin. Það er ekkert óalgengt að sja svona samtöl í svona myndum, en þessi samtöl sem ég er með í hugsa voru alveg roosalega strið og skrítin og venjulega var Brad Pitt  í þessum senum. Eins og ég sagði var 
hann rosa þurr í þessari mynd og hugsanlega var það þess vegna sem samtölin urðu svona skrítin.

Handritið:
Ég las handritið af myndinni eins og við áttum að gera, og alveg hreinskilninslega eyðilagði það myndina hálfpartinn fyrir mér. Bara já, finnst að það megi koma fram. Það pirraði mig að vera alltaf að stoppa að lesa og missti oft samhengi í myndinni vegna þessa. Auk þess fannst mér ég alltaf vera spoila myndinni, því ég vissi alltaf hvað var að fara gerast :(
En allavega, ég viðurkenni að mér fannst samt áhugavert að lesa handritið sjálft. Það var miklu einfaldara en ég hélt að það yrði. Ég einhvernveginn bjóst við að það yrðu meiri og nákvæmari lýsingar á senum og sjónarhornum og svona, en svo var ekki.  Samtöl voru, tjah, nákvælega eins og ég hélt svo hef ekkert beint að segja um það. En já, það sem mér fannst klárlega koma mér mest á óvart var hve lýsingar á senum vor eitthvað ónákvæmar. Ok þær voru nákvæmar, en samt ekki jafn mikið og ég hélt.
Annars var handritið nákvæmlega eins og ég bjóst við að handrit væri, svo ég hef ekkert mikið að segja meira um það :)
Eitt reyndar sem ég tók eftir að það var algerlega breytt endanum í myndinni og frá handritinu. En það var miklu flottara í myndinni, svo jibbi!

Í stuttu máli:
Ágæt mynd. Mjög skemmtileg. Flottir búningar og ágætur leikur á köflum.
Ef þú fílar vampírur, plíis horfðu á þessa en ekki Twilight! ;)

Friday, November 5, 2010

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo

Christiane F. - Wir Kinder vom Bahnhof Zoo er þýsk mynd leikstýrð af Uli Edel árið 1981 og er byggð á sannri sögu. Myndin Fjallar um 13/14 ára stelpu sem heitir Christaine F. Hana langar rosalega að prófa nýjasta skemmtistaðinn sem allir eru að tala um og fær vinkonu sína til þess að fara með sig þangað. Það má segja að þetta breyti lífi hennar svo sannarlega. Þetta kvöld hittir hún nýtt fólk, fólk í dópi. Hún kynnist fólki sem hún fer að hanga með mikið. Fyrsta kvöldið er henni boðið upp á töflur. Í fyrstu neitar hún pent en endar með því að taka töflurnar. Þetta var byrjunin á dópvandamáli þessara stelpu. Mamma hennar hefur hitt nýjan mann, og hefur því engann tíma til þess að uppgötva(!!) vandamál dóttur sinnar.
Christiane hittir Detlev, en þau verða rosa ástfangin. En einn daginn byrjar Detlev á "H", eða heróíni. Þau hætta saman um tíma (byrja samt aftur saman), en fljótlega fer Christiane að prófa sig lengra í dópi og endar í heróíni eins og allir vinir hennar. Líf hennar tók að snúast um næsta skammt. Að eyða nóttum með vinum sínum í eiturlyjavímu. Festist algerlega í dópinu. Allt hættir að skipta máli þegar fráhvarfseinkennin koma. Myndin fjallar síðan um baráttu þessara ungu stelpu og fólksins sem hún hengur með.

Jæja, mér fannst þetta flott mynd! Það er eitthvað við svona dópmyndir. Annað hvort ná þær að koma skilaboðunum á framfæri eða verða asnalegar(ekki rétta orðið, een). En Wir Kinder vom Bahnhof Zoo kom boðskapnum vel á framfæri(þó það væri ekki aðaláherslan)... dóp er hræðilegt!
En ég ætla ekki að tala um það, heldur myndina sjálfa.

Það sem mér fannst flott við myndina var ekki myndatakan, ekki effectarnir, ekki tónlistin, ónei, heldur sagan. Myndin er byggð á sannri sögu Christiane F. og var þetta rosaleg saga! Það að 13 ára stelpa lendir í hættulegum heimi dópsins er erfitt áhorf. Að sjá hana hægt og rólega fara frá því að vera venjuleg 13 ára stelpa í að selja sig á götum Berlin til þess að eiga fyrir næsta skammti.
Stelpan sem lék hana Christiane, hún Natja Brunckhorst,  stóð sig mjög vel.
Það sem mér fannst einnig flott við myndina, er að það var ekkert beint verið að ýta undir "dóp er vont" skilaboðin, heldur er einfaldlega sagt sögu Christiane. Það leiðir augljóslega að skilaboðunum sem ég talaði um, en það var samt engan veginn það sem var lagt áherslu á. Áhersla var á að tjá sögu stelpunnar, sem er auðvitað um hræðilega reynslu hennar af heróíni og öðrum eiturlyfjum.
Það var ekkert fegrað hvernig dópheimurinn var sýndur. Það var sýnt hvernig þau veslast upp, verða háð, peningalaus, sum stunda vændi (auðvitað strákarnir líka) og hvernig þau missa eiginlega sín einkenni því allt snýst um að svala fíkninni á heróíni (eða hvað sem þau taka). Það eru sýnd ógeðslegu klósettin, nálastungur, áhrifin, fráhvarfseinkenni og hve erfitt er að losnsa úr klóm fíknarinnar o.fl.

Eitt annað sem mig langar svolítið að benda á sem pirrar mig svo mikið í (alltof) mörgum myndum nú til dags að leikarar sem leika unglinga eru svona 26 ára. En í þessari mynd er fengið stelpu sem er í alvörunni 13/14 ára gömul og kemur það svo miklu miklu betur út og er raunsærra. Ég kaupi það bara ekki þegar það er notað svona gamla leikara í ung hlutverk. Þannig já, það hefði eyðilagt áhrifin ef það hefði ekki verið notuð þessi unga hæfileikaríka dama í hlutverk Christiane.

Ég var mjög forvitin að sjá hvernig fór fyrir Christiane F. í framtíðinni þannig ég fór aðeins á google. Fjölmiðlar hringja stundum í hana til að sjá hvernig hún hefur það. Hún hefur fallið oft aftur í dópfíknina og m.a. verið svift forræði yfir barninu sínu. Já, ekki gott líf, hún náði sér aldrei almennilega eftir þessa lífsreynslu.

Hér einn ágætur trailer fyrir myndina:

Í stuttu máli:
Flott mynd sem tjáir sögu Christiane F. mjög vel. Ef þig langar að sjá hráa mynd með góðri sögu og ef þér finnst allt í lagi að horfa á frekar nasty nálaatriði þá mæli ég með þessari.

The Proposal

Jæja um daginn ákváðum við vinkonurnar að horfa á The Proposal! Blogga smá smá um hana :)

The Proposal er leikstýrð af Anne Fletcher og var sýnd 2009. Hún fjallar um hana Margaret, en hún er yfirmaður í einhverju big-shot útgáfufyrirtæki. Hún er algjör belja og er leiðinleg við alla. Sérstaklega aðstoðarmann sinn Andrew. En hvað! Einn daginn er tekið hana á skrifstofu yfirmanns síns. Visað hennar er að renna út þar sem hún er frá Kanada og á að vísa henni úr landinu. Hún tekur ákvörðun í fljótfærni og segist vera trúlofuð aðstoðarmanninum sínum, honum Andrew, og að þau séu að fara gifta sig bara í næstu viku eða eitthvað. Andrew er ekki hrifinn af þessu, enda getur hann farið í fangelsi! Hann vill því fá stöðuhækkun í staðinn fyrir þennan greiða. Síðan verða hlutirnir flóknir og þau enda heima í bænum sem Andrew ólst upp í og fjölskylda hans býr. Þau ætla að gifta sig þar (til þess að plata visa eftirlitsmennina). Síðan gerist fullt af hlutum og drama sem já, gerir myndina a því sem hún er.

The proposal er rooooosalega fyrirsjáanleg. Bara titillinn og coverið sagði mér endann. Þetta er svona stelpumynd sem er svona freeekar(haha djók, mjöög) sykurkennd á tímum. Persónurnar eru látnar virðast hata hvor aðra í byrjun. Hatur. Engin ást. En þegar líður á myndina komast þau að því að þau elska hvort annað, auðvitað.
Hef... eiginlega ekkert að segja um söguþráðinn. Hann er eins dæmigerður og hægt er að hugsa sér. Atburðarrásin meikar ekkert sense í rauninni, en það tilheyrir nú rómantískum gamanmyndum.  ;)
Enginn leiksigur á ferð, enda ekki beint hægt í þessari mynd. Handritið er ekkert til að hrópa húrra fyrir, en kom samt alveg með fína brandara. En hins vegar voru sum atriðin, tjah, fáránlega léleg en áttu að vera rosalega fyndin... en voru það bara ekki. Bara kjánahrollur yfir lélegu atriði. Þannig myndin átti sína skemmtilegu hluta, og sína (mjög) vondu.
Kannski var það svo bara ég... en ég skynjaði næstum ekkert chemistry á milli persónanna í myndinni! Sem mér fannst frekar skondið því þetta er rómantísk gamanmynd. Bara allt í einu voru þau orðin ástfangin og ætla að reyna á samband!
En hvað með það. Þetta er ekki meistaraverk, augljóslega. En hvað með það, ég viðurkenni að mér fannst hún skemmtileg. Þetta var góð afþreying, sem er nákvæmlega tilgangurinn með þesari mynd. Það er ekki verið að leitast eftir að gera góða mynd, heldur mynd sem lætur áhorfandann brosa smá, sem tókst. Þannig ég kvarta svo sem ekki :)

Það er svo sem ekkert mikið að segja um þessa mynd, hún er nákvæmlega eins og ég bjóst við að hún væri, s.s rosa fyrirsjáanleg og dæmigerð rómantísk gamanmynd

Í stuttu máli:
Ef þið langar að horfa á meistaraverk, slepptu þessari!! Ef þig langar að horfa á heilalausa, , klisjukennda og fyrirsjáanlega mynd sem er samt alveg gaman að horfa á, skelltu þér á þessa ;)